Skýrsla um samstarf safna á Vesturlandi

SSVFréttir

Nú er komin út skýrsla um aukið samstarf safna á Vesturlandi. Skýrslan er unnin af ráðgjafafyrirtækinu Creatrix undir stjórn Signýjar Óskarsdóttur og Emmu Bjargar Eyjólfsdóttur í samstarfi við Sigurstein Sigurðsson menningarfulltrúa hjá SSV.

Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi var falið af Mennta- og menningarmálaráðuneytinu að kanna fýsileika á auknu samstarfi eða sameiningu safna á Vesturlandi í samráði við höfuðsafn og viðurkennt safn með vísan til 13. gr. safnalaga, nr. 141/2011. Verkefnið fellur undir lið C-14 í byggðaáætlun sem ber heitið Samstarf safna – ábyrgðarsöfn.

Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi hlutu styrk frá Mennta- og menningarmálaráðuneytinu til að vinna verkefnið og var í kjölfarið gerður samningur við Creatrix um framkvæmd þess.

Skýrslan byggir að hluta til á gögnum sem safnað var 2019 en þá voru tekin viðtöl við forstöðumenn safna í eigu sveitarfélaga á Vesturlandi og við safnverði og starfsfólk safna. Einnig byggir skýrslan á hugmyndum sem komu fram í samtali safnafólks á ráðstefnu um safnamál vorið 2020 sem skipulagt var af SSV. Ráðstefnan fór fram rafræn á tímum heimsfaraldar og er hægt að sjá ráðstefnuna hér. En á ráðstefnunni var unnið áfram með þær hugmyndir safnafólks sem teknar voru saman í skýrluna 2019. Á málþinginu voru einnig innlegg frá sérfræðingum og öðru safnafólki á landinu.

Skýrslan sem nú lítur dagsins ljós byggir á viðtölum við forstöðumenn höfuðsafnanna þriggja, framkvæmdastjóra safnaráðs, fulltrúa sveitarfélaga í menningarnefndum á Vesturlandi, viðtölum við forstöðumenn safna eða setra sem ekki voru með 2019, héraðsskjalaverði og fleiri aðila.

Hugmyndir og viðhorf viðmælenda voru dregnar saman í tillögur til framkvæmdar og þær kynntar fagaðiluð í safnastarf á Vesturlandi á rafrænum fundi um aukið samstarf safna sumarið 2021, skipulagða af SSV. Upptöku af fundinum má nálgast hér. Hugmyndir voru kynntar og umræður um þær fóru fram á meðal safnafólks og fulltrúa sveitarfélaga sem voru á málþinginu. Í kjölfar málþingsins var skýrslan uppfærð í takt við góðar ábendingar sem komu bæði skriflega og munnlega inn á málþingið.

Undir lok júnímánaðar birtust tvær skýrslur á vef Mennta- og menningarmálaráðuneytisins sem fjalla um skýrslu um varðveislu og aðgengi að menningararfinum annars vegar og um stefnumörkum um safnastarf hins vegar. Í báðum stefnunum er fjallað um mikilvægi samstarfs bæði á milli safna innbyrðis og á milli stjórnvalda og safnanna. Áhersla er lögð á eflingu innviða sem eiga að stuðla að faglegu safnastarfi, til dæmis í formi öruggs húsnæðis til varðveislu muna.

Ljóst er að hugmyndir safnafólks á Vesturlandi ríma vel við stefnu stjórnvalda um öflugt og faglegt safnastarf til framtíðar.  Auk þess að staðfesta að söfn á Vesturlandi eru nú þegar í samstarfi þá liggja fyrir hugmyndir um að efla það samstarf með stofnun klasa safna og sýninga á Vesturlandi, þar sem sýningar, setur og önnur safnatengd starfsemi, sem ekki fellur undir safnalög, hafi jafnframt aðgang að vettvanginum. Einnig er lagt til að sveitarfélög á Vesturlandi hefji formlegt samtal um meiri samvinnu varðandi minjavörslu í landshlutanum sem og framtíð rafrænnar skjalavistunar.

Samstarf safna á Vesturlandi – skýrsla 2021

Aukin samvinna safna á Vesturlandi – samantekt 2019

Sigursteinn Sigurðsson
Menningar- og velferðarfulltrúri Vesturlands