Samgöngusáttmáli fyrir Vesturland og átak í heilbrigðismálum

SSVFréttir

Guðveig Lind Eyglóardóttir, formaður SSV

Sveitarstjórnarfólk á Vesturlandi kom saman á Haustþingi Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi (SSV) nýverið og ræddi helstu hagsmunamál landshlutans og ályktaði um ýmis málefni sem ofarlega eru á baugi.  Fyrir utan að sinna þeim lögbundnu verkefnum sem sveitarfélögunum eru falin og öðrum þeim verkefnum sem þau taka að sér, þá er hagsmunagæsla gangvart ríkisvaldinu verkefni sem þau sinna af krafti. Því eru ekki úr vegi í aðdraganda þingkosninga að fara yfir helstu áherslur sveitarstjórnarfólks á Vesturlandi varðandi verkefni ríkisvaldsins á Vesturlandi, hvort sem það er uppbygging innviða eða opinber þjónusta.

Samgöngusáttmáli Vesturlands

Mikil umræða hefur verið um samgöngumál á Vesturlandi undanfarið enda var sú samgönguáætlun sem lögð var fram á alþingi sl. vetur óásættanleg. Aðeins átti að verja 700 milljónum af þeim tæplega 45 milljörðum sem áttu að fara í uppbyggingu stofnvega á landsbyggðinni til verkefna á Vesturlandi. Það gengur einfaldlega ekki að leggja fram slíka áætlun og þess krafist á haustþingi SSV að gerðar verði breytingar á fyrirliggjandi áætlun.

Á sama tíma og verja á afar litlum fjármunum til nýframkvæmda á Vesturlandi er vegakerfið sem fyrir er, að hluta í mjög slæmu ásigkomulagi  og skemmst að minnast þess að eina ráðið sem Vegagerðin hafði í Dalabyggð sl. vor var að svifta slitlaginu af og láta vegfarendur aka á malarvegi í fleiri mánuði. Það er öllum ljóst að það þarf auknar fjárveitingar í viðhald.

Mikilvægt er að bæta vetrarþjónustu Vegagerðarinnar á Vesturlandi og á það sérstaklega við á Snæfellsnesi, í Dalabyggð og uppsveitum Borgarfjarðar.

Því vilja sveitarfélögin að gerður verði samgöngusáttmáli við Vesturland sem byggir á Samgönguáætlun Vesturlands, en í áætluninni kemur fram hvaða verkefnum sveitarfélögin vilja forgangsraða. Rétt er að geta þess að haustþingið hvatt jafnframt til þess að gerður verði samgöngusáttmáli við alla landshluta.

Afhendingaröryggi orku

Það liggur fyrir að orkuskortur er farinn að há uppbyggingu atvinnulífs á Vesturlandi og bæta þarf afhendingaröryggi orku. Til að tryggja orkuöryggi á Snæfellsnesi og í Dalabyggð þarf að endurnýja stofnlínuna frá Vatnshömrum í Borgarfirði að Vegamótum á Snæfellsnesi, leggja nýja stofnlínu frá Glerárskógum í Dalabyggð að Vogaskeiði á Snæfellsnesi og endurnýja stofnlínuna frá Hrútatungu að Glerárskógum. Klára þarf að leggja dreifikerfið í jörðu og þrífösun í dreifbýli. Þá þarf að flýta endurnýjun byggðalínunnar frá Hrútatungu að Brennimel til að flytja meira rafmagn inn á Vesturland.   Í ágætri grein í Skessuhorni nýverið benti Haraldur Benediktsson bæjarstjóri á Akranesi á, að dæmi væru um að fyrirtæki sem hyggðust setja upp atvinnustarfsemi á Grundartanga yrðu frá að hverfa og jafnvel væri orkuskortur að ógna starfsemi rótgróinna fyrirtækja á svæðinu.

Betri fjarskipti

Það er ánægjulegt að grettistaki hefur verið lyft í ljósleiðaravæðingu á Vesturlandi og flest bendir til þess að ljósleiðari verði kominn í alla þéttbýlisstaði á næstu tveimur árum og nú þegar er gott aðgengi að ljósleiðara í dreifbýli.  Hins vegar er farsímakerfið víða götótt og þrátt fyrir kröfu Fjarskiptastofnunar á fjarskiptafyrirtæki um að tryggt verði gott samband á öllum stofnvegum þá eru engar kröfur gerðar um öruggt samband á mikilvægum og fjölförnum tengivegum eins og Laxárdalsheiði og Heydal sem jafnframt eru mikilvægar varaleiðir þegar Holtavörðuheiði lokast.  Þá er samband víða ekkert eða gloppótt á vinsælum útivistarsvæðum .   Því er áhersla á mikilvægi þess að tryggja áreiðanlegt farsímasamband alls staðar.

Eflum heilbrigðisþjónusta

Á Haustþingi SSV 2024 áréttuð fulltrúar mikilvægi þess að tryggja fjárveitingar til heilbrigðisþjónustu á Vesturlandi og efla hana frekar.  Rétt er að benda á þau tækifæri sem felast í því að byggja upp sérhæfða þjónustu á sjúkrahúsum utan höfuðborgarinnar, en góð reynsla af bakdeild á sjúkrahúsinu í Stykkishólmi og deild fyrir liðskiptaaðgerðir á Akranesi sýna þetta.

Brýnt er efla þjónustu heilsugæslustöðva, en þær gegna mjög mikilvægu hlutverki í öllum byggðarlögum. Þær þurfa að vera vel í stakk búnar til að mæta þörfum íbúa svæðisins á hverjum tíma, auk þess að sinna stórauknum fjölda ferðafólks og sumarhúsafólks sem sækir Vesturland heim og þarf á heilbrigðisþjónustu að halda. Nauðsynlegt er að skapa heilsugæslustöðvunum þá umgjörð að hægt sé að tryggja stöðugleika og samfellu í viðveru lækna og annars menntaðs heilbrigðisstarfsfólks alla daga á heilsugæslustöðvum umdæmisins. Til að tryggja mönnun á heilsugæslustöðum er nauðsynlegt að veita auknu fjármagni til viðhalds húsnæðis og uppbyggingu tækjabúnaðar þeirra á Vesturlandi. Þessi þáttur hefur veruleg áhrif á starfsánægju og eykur líkur á því að hægt sé að laða að nýtt starfsfólk.

Aukin löggæsla

Fjölgun íbúa á Vesturlandi, dulin búseta vegna fjölda sumarhúsa og aukin fjöldi ferðamanna kallar á aukna löggæslu. Aukin umferð kallar jafnframt á aukna löggæslu á vegum úti og fjárveitingar þurfa að taka mið af þessu. Mikilvægt er að hækka fjárveitingar til löggæslu á Vesturlandi svo mögulegt sé að halda úti sólarhringsvakt á Akranesi og í Borgarnesi, auk þess að fjölga lögregluþjónum í Búðardal.

Aðstaða lögreglunnar í Búðardal er afar bágborin. Það er brýnt að bæta úr þessu með því að veita fjármagni til að bæta aðstöðu lögreglunnar í Dalabyggð.  Auk þess er brýnt að hefja byggingu nýrrar lögreglustöðvar í Borgarnesi í samstarfi við sveitarfélagið nú þegar.

Við treystum því að frambjóðendur í Norðvesturkjördæmi kynni sér sameiginlegar áherslur sveitarfélaganna á Vesturlandi um innviðauppbyggingu og þjónustu ríkisins á Vesturlandi sem koma fram í ályktunum Haustþings SSV 2024.

Hér má finna ályktanir Haustþings SSV í heild sinni

Guðveig Lind Eyglóardóttir
Höfundur er formaður stjórnar SSV.