Samgöngu- og innviðaáætlun Vesturlands var samþykkt á Haustþingi SSV í lok síðasta árs en er hér komin út í vefútgáfu.
Starfshópur á vegum Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi vann samgönguáætlun fyrir Vesturland árið 2016, sem samþykkt var af öllum sveitarfélögunum 10 í byrjun árs 2017. Í henni kom fram sameiginleg framtíðarsýn um uppbyggingu og forgangsröðun verkefna í samgöngu- og fjarskiptamálum á Vesturlandi. Áætlunin hefur orðið til þess að sveitarfélögin hafa haft skýra sýn og verið samstíga í málflutningi sínum um bættar samgöngur í landshlutanum. Reynslan hefur því verið góð af því að vinna með sameiginlega áætlun og því var ákveðið að endurskoða og uppfæra áætlunina. Stjórn SSV skipaði sjö manna starfshóp til að halda utan um verkefnið að fengnum tilnefningum frá sveitarfélögunum. Í hópnum eru; Lilja B. Ágústsdóttir formaður, Gísli Gíslason, Guðjón Jónasson, Sigurður Guðmundsson, Sigríður Huld Skúladóttir, Jakob B. Jakobsson og Kristinn Jónasson. Með hópnum störfuðu starfsmenn SSV. Stjórnvöld vinna samgönguáætlun, annars vegar framkvæmdaáætlun til 4 ára og hins vegar stefnumótandi áætlun til 15 ára. Sú áætlun er leiðarljós fyrir þessa vinnu sveitarfélaga á Vesturlandi. Þrátt fyrir það er brýnt að landshlutinn vinni sérstaka áætlun sem inniheldur áherslur og forgangsröðun sveitarfélaganna. Í samgönguáætlun ríkisins kemur fram að samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið hafi tvö meginmarkmið. Annað þeirra er „Sjálfbærar byggðir og sveitarfélög um land allt“, í því felast meðal annars eftirfarandi leiðarljós:
- Við forgangsröðun aðgerða verði tekið tillit til óska sveitarstjórna og sóknaráætlana landshluta.
- Skipulag og forgangsröðun samgangna og fjarskipta um land allt taki tillit til umhverfisgæða og lýðheilsu.
- Uppbygging heildstæðs almenningssamgöngukerfis verði um allt land.
- Sjálfstjórn og ábyrgð sveitarfélaga virt og tryggð verði sem jöfnust réttindi og aðgengi íbúa að þjónustu.
Einnig er í þessari vinnu horft til fjarskiptaáætlunar stjórnvalda. Á lokametrum vinnunnar var ákveðið að taka líka til umfjöllunar stöðuna á raforkumálum á Vesturlandi, annars vegar með því að leggja fram stöðumat og hins vegar með yfirlit yfir þær aðgerðir sem að mati starfshópsins þarf að setja í forgang. Þau verkefni sem tilgreind eru í tillögu hópsins er ekki tæmandi talning þeirra verkefna sem þarf að sinna. Forgangsröðun og verktími eru verkefni sveitarfélaga, Alþingis og viðkomandi stofnana að glíma við. Góð yfirsýn yfir verkefni og samstaða um áherslur í heimabyggð létta okkur róðurinn og auka líkurnar á því að uppbygging á Vesturlandi gerist hraðar og verði í takt við áherslur heimamanna.