Rúmlega 700 grunnskólanemar mættu á Tæknimessu í FVA

SSVFréttir

Fimmtudaginn 10. október var haldin Tæknimessa í Fjölbrautarskóla Vesturlands á Akranesi (FVA).  Á Tæknimessu var nemendum úr öllum grunnskólum á Vesturlandi boðið í heimsókn í FVA þar sem skólinn kynnti iðnnámsbrautir sínar, auk þess sem nokkur öflug iðnfyrirtæki á Vesturlandi kynntu sína starfsemi.  Yfir 700 grunnskólanemar heimsóttu skólann og eftir að nemendur fóru í gegnum messuna var þeim boðið í Bíóhöllina á Akranesi þar sem Heiðar Mar Björnsson kvikmyndagerðarmaður kynnti fyrir þeim kvikmyndagerð og sýndi stuttmynd sem hann gerði nýverið.  Eins og vera ber í bíóhöll þá fengu allir popp og kók og skemmtu sér vel.

Að sögn Hlédísar Sveinsdóttur framkvæmdastjóra Tæknimessunnar gekk allt vel fyrir sig og voru grunnskólanemar af Vesturlandi til fyrirmyndar og vonandi að á messunni hafi kviknað áhugi hjá krökkunum að fara í iðnnám.

Tæknimessan er er hluti af áhersluverkefni Sóknaráætlunar Vesturlands sem ber heitið „Nýsköpun, frumkvöðlar og tæknimenntun“ og er fjármögnuð af Sóknaráætlun.  Tæknimessan er samstarfsverkefni Fjölbrautarskóla Vesturlands á Akranesi og Sóknaráætlunar Vesturlands.