Ríkisútvarpið mun auglýsa að nýju lausa stöðu fréttamanns á Vesturlandi síðar á þessu ári

SSVFréttir

Á 173. fundi stjórnar SSV sem fór fram í lok janúar var starfsemi RÚV á Vesturlandi til umræðu.  Í kjölfar umræðunnar bókaði stjórn SSV eftirfarandi:

„ Stjórn Samtaka sveitarfélaga Vesturlandi skorar á yfirstjórn Ríkisútvarpsins að auglýsa nú þegar eftir fréttamanni til starfa á Vesturlandi.  Undanfarin ár hefur fréttamaður RÚV verið staðsettur í Borgarnesi og flutt fréttir af Vesturlandi.  Það hefur haft mjög jákvæð áhrif á umfjöllun um Vesturland að fréttamaður sé staðsettur á svæðinu og ljóst að það yrði mikil afturför og ólíðandi ef enginn fréttamaður væri staðsettur hér.  RÚV er fréttamiðill allra landsmanna og mikilvægt að fréttamenn séu staðsettir sem víðast.
Jafnframt skorar Stjórn SSV á yfirstjórn RÚV að efla dagskrárgerð af landsbyggðinni bæði í útvarpi og sjónvarpi. Sömuleiðis að huga betur að því að viðmælendur og álitsgjafar sem fjalla um málefni er varða hagsmuni allra landsmanna komi  víðar en bara af höfuðborgarsvæðinu. Stjórn SSV lýtur á það sem mikilvægt byggðamál að birtar séu fréttir, og dagskrárefni, jafnt af öllu landinu og að raddir allra landshluta heyrist sem víðast. Það hlýtur að vera hlutverk Ríkisútvarpsins öðrum fremur. „

Útvarpsstjóri svaraði ályktun stjórnar SSV um hæl og kynnti að fréttastofan hafi ákveðið að auglýsa að nýju starf fréttamanns RÚV á Vesturlandi, auk þess sem lögð verði áhersla á að efni og umfjöllun í dagskrá RÚV endurspegli fjölbreytt mannlíf um allt land“ ?

Lógó RÚV