Ratsjáin: Nýsköpunar- og þróunarverkefni Íslenska ferðaklasans

SSVFréttir

Ratsjáin hófst með formlegum hætti nú í byrjun janúar. Um 80 fyrirtæki á landinu öllu voru samþykkt til þátttöku í verkefninu þar af eru af Vesturlandi þátttakendur frá 19 fyrirtækjum.  Ratsjáin,  nýsköpunar- og þróunarverkefni Íslenska ferðaklasans og landshlutasamtaka er átta vikna námskeið ætlað stjórnendum í ferðaþjónustu og tengdum greinum.  Námskeiðið fer fram í gegnum fjarfundarbúnað og kennt er í tveggja vikna lotum. Aðra hverja viku er boðið upp á fyrirlestra fyrir allan hópinn en hina vikuna eru svokallaðir heimafundir þar sem þátttakendur hvers svæðis vinna með verkefni tengd fyrirlestrunum og sínum eigin fyrirtækjum.

Í fyrstu lotu var fókusinn á markaðsmál og markhópa og í þeirri lotu sem nú er í gangi er fókusinn á reksturinn hjá hverjum og einum.  Á næstu vikum verður fjallað um hönnunarhugsunina, stafræna vegferð, sjálfbærni og samfélagsábyrgð, nýsköpun og vöruþróun og sýnileika og samstarf.  Ratsjáin hefur farið vel af stað og það er góð stemming í hópnum sem tekur þátt.