Ný skýrsla um Ísland ljóstengt leiðir í ljós ótvíræðan árangur og samfélagslegan ávinning af verkefninu

SSVFréttir

Vífill Karlsson hagfræðingur og skýrsluhöfundur

Landsátakinu Ísland ljóstengt lýkur á þessu ári, en síðustu styrktarsamningar Fjarskiptasjóðs við sveitarfélög um ljósleiðarauppbyggingu í dreifbýli utan markaðssvæða voru undirritaðir í lok síðasta mánaðar.

Vífill Karlsson hagfræðingur og atvinnuráðgjafi SSV vann skýrslu um Ísland ljóstengt fyrir samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið og  leiðir hún í ljós ótvíræðan árangur og samfélagslegan ávinning af verkefninu. Í niðurstöðum skýrslunnar segir að betri fjarskiptatengingar hafi bætt lífsgæði íbúa á landsbyggðinni og aukið byggðafestu og atvinnuöryggi.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, kynnti árangur og samfélagslegan ávinning af landsátakinu á kynningarfundi í ráðuneytinu þann 12. maí s.l. Auk hans flutti formaður fjarskiptasjóðs ávarp, sveitarstjórnarfólk fjallaði um reynslu af Íslandi ljóstengt og loks kynnti Vífill Karlsson höfundur skýrslunnar efni henni nánar.

Í skýrslunni um samfélagsleg áhrif af verkefninu Ísland ljóstengt eru kynntar fjölmargar áhugaverðar niðurstöður en höfundur hennar er Vífill Karlsson, hagfræðingur. Ljóst er að verkefnið hefur bætt aðgengi og gæði nettenginga á þeim svæðum sem hlotið hafa styrk til uppbyggingar sem hefur haft mikil áhrif fyrir íbúa í dreifbýli.

Helstu niðurstöður skýrslunnar:

  • Verkefnið hefur aukið byggðafestu á styrktum svæðum.
  • Vísbendingar eru um að lífsgæði hafi aukist í kjölfar úrbóta á nettengingum á grundvelli verkefnisins.
  • Ísland ljóstengt virðist hafa leitt til betri stöðu íbúa á vinnumarkaði: Meira atvinnuöryggi, hærri launatekjur, meira atvinnuúrval og meiri möguleikar til eigin atvinnureksturs.
  • Betri nettengingar geta stuðlað að hagfelldara vistspori samfélagsins. Gögn benda til þess að íbúar sem fengið hafa betra netsamband ferðist minna vegna vinnu. Áhrifin reynast sterkari í dreifbýli en þéttbýli.
  • Vísbendingar komu fram um að betri nettengingar hafi stuðlað að því að lækka vöruverð, framfærslukostnað og bæta vöruúrval.
  • Aðgengi að menningu og menntun er betra hjá þeim sem hafa góðar nettengingar.
  • Fyrirtæki á landsbyggðinni telja nettengingar mikilvægasta þáttinn í sínum rekstri af þeim 17 þáttum sem spurt var um. Fyrirtækin voru mjög sammála um þetta og ekki mikill munur á milli atvinnugreina. Það er því ljóst að atvinnulífið hefur notið mjög góðs af aðkomu Ísland ljóstengt í uppbyggingu ljósleiðara í dreifbýli. Meiri netnotkun barna virðist auka færni þeirra og þroska. Betra aðgengi að neti hefur þó ekki bara kosti í för með sér. Það stuðlar að lengri skjátíma með tilheyrandi neikvæðum áhrifum.
  • Efnahagssamdráttur og heilsutjón hefði orðið meira hérlendis vegna Covid ef góðra nettenginga hefði ekki notið við.
  • Covid-19 virðist síðan ætla að hafa varanlegar breytingar á vinnumarkaði sem grundvallast á góðum nettengingum, svo sem aukinn sveigjanleika fyrir fólk sem getur unnið störf án staðsetningar og auknir atvinnumöguleikar fatlaðs fólks.

    Skýrsla um samfélagsleg áhrif landsátaksins Ísland ljóstengt
    Linkur á kynningarfundinn