Mikil gróska í nýsköpun á Vesturlandi

SSVFréttir

Átta nýsköpunarteymi kláruðu nýverið viðskiptahraðalinn Vesturbrú sem Samtök Sveitarfélaga á Vesturlandi, NýVest og Gleipnir stóðu að. Vesturbrú er sex vikna viðskiptahraðall með áherslu á sjálfbærni.  Þátttakendur fengu í hraðlinum tækifæri til að efla og styrkja sín verkefni með margvíslegri fræðslu, samtölum við mentora og ráðgjafa og á sameiginlegum vinnustofum sem haldnar voru víða um Vesturland. Nýsköpunarteymin kynntu verkefni sín á lokaviðburði Vesturbrúar í Hjálmakletti fimmtudaginn 1. febrúar að viðstöddum fjölda gesta.

Nýsköpunarteymin sem kynntu verkefni sín á lokaviðburðinum voru:

Fræðslugreiningartól Effect – Hugbúnaðarlausn sem greinir fræðsluþörf innan fyrirtækja og stofnana í rauntíma og gefur starfsfólki verkfæri til að meta eigin færni og þekkingu til að taka betur ábyrgð á eigin fræðsluvegferð

Urður Ullarvinnsla – Ull og ullarband úr Dölunum sem hefur það markmið að draga fram sérstöðu íslensku ullarinnar og stuðla að auknu verðmæti hennar.

Hraundís – Íslenskar ilmkjarnaolíur úr íslenskri náttúru

Simply the West – Afþreyingarfyrirtæki sem sameinar bókanir á afþreyingu á Vesturlandi á einum stað og auðveldar þannig aðgengi ferðamanna að svæðinu

Grammatek – Grammatek þróar íslenska máltækni með aðstoð gervigreindar

Snæfellsnes Adventure – Snæfellsnes Adventure stefnir að sérhæfingu í móttöku farþega skemmtiferðaskipa með sjálfbærni, fjölgun atvinnutækifæra og hag samfélagsins að leiðarljósi.

Barnaból – Barnaból framleiðir vöggusett tilbúið til útsaums og hvetur þannig til að endurvekja gamla íslenska hefð

Kruss – Verkefnið „íslensku jólasveinarnir koma úr Dölunum“ miðar að því að varðveita íslensku jólasveinana sem eru brothætt menningarverðmæti