Nú hefur verið undirritað samkomulag um framkvæmd Listavinnuskólans í fjórum sveitarfélögum á Vesturlandi. Verkefnið er hluti af áhersluverkefni Sóknaráætlunnar Vesturlands með yfirtitlinum Menningargróska. Verkefnið gengur útá að Sóknaráætlun leggur til aukaframlag við launakostnað flokkstjóra í vinnuskólum sveitarfélaganna, þannig hægt sé að ráða flokkstjóra með menntun og/eða reynslu í listum. Auk þess kemur viðbótarframlag sem nýtist til hugsanlegra efniskaupa við verkefnið. Að sama skapi eru markmið verkefnisins að skapa störf fyrir fólk starfandi í listum.
Starfsfólk vinnuskólanna er á aldrinum 13-15 ára og hafa starfað við fegrun og umhirðu svæða innan sveitarfélaganna. Með Listavinnuskólanum gefst þeim tækifæri á að starfa við skapandi greinar í sínum sumarstörfum, og munu til dæmis fá leiðsögn við gerð götulistaverka frá fagfólki. Í Menningarstefnu Vesturlands 2021-2024 er sett fram aðgerð sem miðar við að á Vesturlandi verði boðið uppá skapandi sumarstörf fyrir unglinga, og er þetta verkefni liður í þeirri vegferð.
SSV fyrir hönd Sóknaráætlunar kallaði eftir samstarfi við sveitarfélögin á Vesturlandi og brugðust fjögur þeirra við kallinu. Það eru Akraneskaupstaður, Borgarbyggð, Grundarfjarðarbær og Sveitarfélagið Stykkishólmur sem taka þátt í samstarfinu og hafa umsjón með verkefninu á sínum svæðum.
Á meðfylgjandi myndum má sjá Sigurstein Sigurðsson, menningafulltrúa skrifa undir samning við þátttökusveitarfélögin, en tengiliðir þeirra eru Vera Líndal Guðnadóttir, forstöðumaður menningar- og safnamála hjá Akraneskaupstað, Sigríður Dóra Sigurgeirsdóttur tómstundarfulltrúi hjá Borgarbyggð, Magnús Bæringsson æskulýðs- og tómstundarfulltrúi hjá Sveitarfélaginu Stykkishólmi og Ólafur Ólafsson íþrótta- og tómstundarfulltrúi hjá Grundarfjarðarbæ