Júlíana – hátíð sögu og bóka haldin í tíunda sinn

SSVFréttir

Dagana 23.-25. mars verður blásið til listahátíðar í Stykkishólmi, en þá fer fram  Júlíana – hátíð sögu og bóka.  Að þessu sinni verður mikið um dýrðir en hátíðin fagnar tíu ára afmælishátíð, en hún var stofnuð árið 2013.

Yfirskrift hátíðarinnar í ár er „Nýir Íslendingar: Áhrif þeirra í skrifum og listum“. Það er mjög viðeigandi í ljósi þess að við endurskoðun Menningarstefnu Vesturlands var haft sem meginreglu að efla menningu Vestlendinga af erlendum uppruna. Það eru því gleðifréttir að áhersla sem þessi sé yfirskrift Júlíönu í ár.

Dagskráin er einstaklega glæsileg í tilefni tímamótanna, en hátíðin verður formlega sett í Stykkishólmskirkju fimmtudaginn 23. mars klukkan 20:00 og verður fjölbreytt dagskrá tengd bókmenntum og sagnahefð víða um Stykkishólm hátíðardagana á eftir. Nánar má lesa um dagskrá hátíðarinnar á Facebook síðu viðburðarins.

Júlíana – hátíð sögu og bóka er nefnd eftir Júlíönu Jónsdóttur í Akureyjum (1838-1917) sem er fyrsta skáldkonan sem gaf út ljóðabók, auk þess sem hún skrifaði leikverk sem voru sett á svið. Hátíðin hlaut styrk úr Uppbyggingarsjóði Vesturlands.

 

Guðrún Eva Mínervudóttir í gömlu Stykkishólmskirkju á Júlíönu árið 2020.