Starfsmenn SSV skelltu sér í heimsókn á Norðurland vestra í síðustu viku og tóku starfsmenn SSNV vel á móti hópnum. Við áttum tvo góða og gagnlega daga þar sem við ræktuðum tengsl og ræddum saman um verkefni og áskoranir landshlutasamtaka. Fyrri deginum eyddum við í Skagafirði þar sem við heimsóttum m.a. Byggðastofnun þar sem við ræddum samstarfið okkar á milli ásamt því að fara yfir starfsemi stofnunarinnar. Við fengum einnig kynningar frá þeim Amber frá Ísponica og Völu frá Kaffikorg í nýju húsnæði Ísponica á Hofsósi.
Daginn eftir keyrðum við yfir í Húnavatnssýslur, á Blönduósi fengum við kynningu á uppbyggingu gamla bæjarins þar. Glæsilegt verkefni og verður gaman að fylgjast með áframhaldandi uppbyggingu á svæðinu um komandi ár. Þar á eftir fórum við á Hvammstanga þar sem við héldum saman vinnustofu. Þar ræddum við nokkur verkefni beggja landshlutasamtaka og ræddum um gerð nýrrar sóknaráætlunar.
Það er gott og hvetjandi að hitta kollega sem eru að vinna að sömu verkefnum í öðrum landshluta, bera saman bækur okkar, læra hvort af öðru og rækta tengslin.
Takk fyrir okkur SSNV!