Haustþing SSV var haldið að Klifi í Ólafsvík

SSVFréttir

Haustþing Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi var haldið í Klifi í Ólafsvík 25.september s.l.  Eggert Kjartansson formaður SSV setti þingið.  Páll Brynjarsson framkvæmdastjóri fór yfir fjárhags- og starfsáætlun SSV fyrir árið 2020 og Margrét Björk Björnsdóttir forstöðumaður kynnti starfsáætlun Markaðsstofu Vesturlands.  Þá var kynnt tillaga að Sóknaráætlun Vesturlands 2020-2040 sem unnin var í samstarfi við Capacent ráðgjöf og var samþykkt að vísa henni til umsagnar íbúa.

Vinnuhópar unnu ályktanir þingsins sem í lok dags voru svo ræddar og samþykktar og birtar verða á heimasíðu SSV. Í hádegishléi fóru þingfulltrúar í skoðunarferð um Snæfellsbæ undir leiðsögn Kristins Jónassonar bæjarstjóra í Snæfellsbæ. Eftir hádegi fluttu ávörp Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu og sveitarstjórnarráðherra, Haraldur Benediktsson, fyrsti þingmaður Norðvestur-kjördæmis og Aldís Hafsteinsdóttir,formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga. Að loknum erindum gesta var opnað fyrir fyrirspurnir og umræður. 

Að ávörpum loknum stýrði Sigurborg Hannesdóttir samtali um umhverfismál. Þar voru þátttakendur Ragnhildur Sigurðardóttir framkvæmdastjóri Svæðisgarðs Snæfellsness, Kristinn Jónasson bæjarstjóri og formaður stjórnar Sorpurðunar Vesturlands, Stefán Gíslason umhverfisfræðingur og Sara Rós Huld Róbertsdóttir framhaldsskólanemi. Þingfulltrúar tóku virkan þátt í samtalinu sem bar yfirskriftina „Að hugsa á heimsvísu og framkvæma heima fyrir – viðfangsefni og tækifæri sveitarfélaganna á Vesturlandi í umhverfismálum.“