Haustþing Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi

Samtök Sveitarfélaga á VesturlandiFréttir

Haustþing SSV 2016 var haldið í Stykkishólmi 5 október s.l. Á þinginu var samþykkt starfs- og fjárhagsáætlun SSV fyrir árið 2017, ályktað var um atvinnu- og umhverfismál, opinbera þjónustu og ýmis málefni sveitarfélaga. Þá var samþykkt menningarstefna fyrir Vesturland og lögð fram tillaga að samgönguáætlun Vesturlands fyrir árin 2017-2029. Mikil umræða var um samgöngumál og var tillögu að samgönguáætlun vísað til umsagnar sveitarfélaga á Vesturland og er fyrirhugað að stjórn SSV taki hana til afgreiðslu á fundi sínum í nóvember.

Góðir gestir ávörpuðu þingið, en þau Ólöf Nordal innanríkisráðherra, Gunnar Bragi Sveinsson sjávárútvegs- og landbúnaðarráðherra og Guðjón Bragason sviðsstjóri hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga fluttu erindi.

Sérstakt þema þingsins var ferðaþjónusta og sveitarfélög. Gísli Einarsson fréttamaður stýrði pallborðsumræðum um þema þingsins og í pallborði voru: Guðjón Bragason frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Skapti Ólafsson frá Samtökum ferðaþjónustunnar, Hrafnhildur Víglundsdóttir frá Ferðamálastofu Íslands, Sigríður Margrét Guðmundsdóttir frá Landnámssetri og Kristín Björg Árnadóttir formaður SSV. Líflegar umræður urðu um ferðaþjónustu og aðkomu sveitarfélaga að henni. Það er ljóst að málefni ferðaþjónustunnar eru mikið til umræðu á vettvangi sveitarfélaganna, enda er vöxturinn í atvinnugreininni gríðarlegur og tækifærin mikil.

Haustþing SSV sóttu á fjórða tug sveitarstjórnarmanna af Vesturlandi auk ýmissa gesta.