Græn atvinnuþróun og nýsköpun um land allt – Fundað með ráðherrum

SSVFréttir

Formenn og framkvæmdastjórar allra landshlutasamtakanna funduðu nýverið með Sigurði Inga Jóhannssyni, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, Guðmundi Inga Guðbrandssyni, umhverfis- og auðlindaráðherra og Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, ferðmála-, nýsköpunar og iðnaðarráherra. Fundurinn bar yfirskriftina Græn atvinnuþróun og nýsköpun um allt land.

Fundurinn fór fram á Teams eins og á við um flesta fundi sem fram hafa farið síðastliðið ár. Á myndinni sést hluti fundarmanna en alls sátu um 25 manns fundinn alls staðar að af landinu.

Á fundinum kynntu landshlutasamtökin víðtæka starfsemi sína og einnig var rætt um tækifæri til aukins samstarfs milli þeirra og ráðuneytanna. Sérstaklega var rætt um farvegi sóknaráætlana enda hafa þær reynst vel sem samstarfsvettvangur ráðuneyta og sveitarfélaga um hin ýmsu verkefni, m.a. Uppbyggingarsjóði, áhersluverkefni og verkefni á byggðaáætlun. Í því samhengi var einkum rætt um verkefni sem snúa að nýsköpun og umhverfismálum enda báðir málaflokkarnir áberandi í sóknaráætlunum allra landshlutanna. Byggðaáætlun bar líka á góma en endurskoðun hennar stendur nú yfir. Landshlutasamtökin hafa eins og nefnt hefur verið komið að framkvæmd nokkurs fjölda verkefna á þeirri áætlun sem nú er í gildi.

Að mati landshlutasamtakanna er samtal sem þetta afar mikilvægt til að auka skilning og koma auga á tækifæri til aukinnar samlegðar verkefna sem og samþættingar við hinar ýmsu stefnur ríkisins. Þannig má hugsanlega ná fram bættri nýtingu fjármuna, aukinni skilvirkni og auknum árangri landshlutanna.