Í gær voru Nýsköpunarverðlaun SSV veitt á Nýsköpunardegi SSV. Það var fyrirtækið G.Run sem fékk verðlaunin þetta árið og er það vel að því komið.
G.Run á rætur að rekja til ársins 1947, en hefur starfað í núverandi mynd frá því árið 1974. Þetta er miðlungsstórt sjávarútvegsfyrirtæki á landsvísu sem rekur útgerð og bolfiskvinnslu. Hjá fyrirtækinu starfa 85 manns.
Í ár hefur verið unnið að framkvæmdum við nýja hátækni fiskvinnslu sem verður tekin í notkun í janúar á næsta ári. Stefnt er að því að þetta verði ein fullkomnasta fiskvinnsla í Evrópu. Bygging nýrrar fiskvinnslu sem nýtir sér allar helstu tækninýjungar ber vott um mikinn metnað, framsýni og trú á samfélagið.
Á sama tíma hefur fyrirtækið ráðist í markvissa fræðslu fyrir starfsfólkið á meðan á framkvæmdum stendur. G.Run samdi við Símenntunarmiðstöð Vesturlands um að bjóða uppá námsleiðina „Íslensk menning og samfélag“ fyrir starfsfólk fyrirtækisins af erlendum uppruna. Þar er tíminn nýttur til íslenskukennslu, menningartengdrar samfélagsfræðslu og hagnýttrar fræðslu s.s. skyndihjálp. Þá hefur verið farið með starfsfólki í fræðsluferðir um Snæfellsnes. Allt miðar þetta að því að efla starfsfólkið og tengja það betur við það samfélag sem það býr og starfar í.
Við færum G.Run innilegar hamingjuóskir með verðlaunin.
Guðmundur Smári Guðmundsson, framkvæmdastjóri og Rósa Guðmundsdóttir, framleiðslustjóri tóku við verðlaununum. Mynd: Skessuhorn, MM