Styrkir til nýsköpunar og atvinnuþróunar veittir á Nýsköpunardegi SSV

SSVFréttir

Í gær var haldin hátíðlegur Nýsköpunardagur SSV í Tónbergi, húsnæði Tónlistarskólans á Akranesi þar sem Nýsköpunarverðlaun Vesturlands voru afhent ásamt 18 styrkjum úr Uppbyggingarsjóði Vesturlands.

Páll S. Brynjarsson, framkvæmdastjóri SSV setti athöfnina en byrjað var á því að veita styrki til þeirra 18 verkefna sem hlutu styrk að þessu sinni úr Uppbyggingarsjóðnum til nýsköpunar og atvinnuþróunar. Alls voru veittir styrkir að upphæð 16,5 mkr.  en alls bárust 32 umsóknir. Ólafur Sveinsson forstöðumaður, atvinnuráðgjafar SSV og Ólöf Guðmundsdóttir, atvinnuráðgjafi SSV afhentu styrkina ásamt Helenu Guttormsdóttur, formanni úthlutunarnefndar.

Þá var komið að því að veita Nýsköpunarverðlaun Vesturlands en atvinnuráðgjafar SSV leggja tillögur fyrir stjórn SSV sem velur þann sem hlýtur verðlaunin. Að þessu sinni hlaut fyrirtækið G.Run heiðurinn fyrir uppbyggingu nýrrar hátækni fiskvinnslu ásamt því að veita starfsfólki sínu markvissa og metnaðarfulla fræðslu. Eggert Kjartansson, formaður SSV afhenti þeim Guðmundi Smára Guðmundssyni, framkvædastjóra G.Run og Rósu Guðmundsdóttur, framleiðslustjóra verðlaunin.

Í lokin voru þrjú áhugaverð fræðsluerindi frá Signý Gunnarsdóttur silkiormaræktanda í Grundarfirði sem sagði frá sínu verkefni, Sævari Frey Þráinssyni bæjarstjóra Akraneskaupstaðar sem talaði um fjórðu iðnbyltinguna og að lokum var það Páll Kr. Pálsson ráðgjafi sem fjallaði um mikilvægi nýsköpunar í starfandi fyrirtækjum.

Verkefnin sem hlutu styrki voru:

Fyrirtæki/einstaklingur – Verkefni  –  Upphæð
Sæfrost ehf.  –  Ostrurækt  –  2.177.500 kr.
Útgerðarfélagið Lokinhamrar- Þróun í veiðum og vinnslu á Grjótkrabba- 2.000.000 kr.
Signý Gunnarsdóttir   –  IceSilk  –  1.660.000 kr.
Hernámssetrið ehf.  –  Njósnað um hernámið  –  1.500.000 kr.
Eðalfiskur ehf.  –  Vinnsla aukaafurða úr laxi  – 1.200.000 kr.
Sláturhús Vesturlands ehf.   –  Beint frá bónda um Brákarey  –  1.097.000 kr.
Akraborg ehf.   –  Umsóknarvinna með EVRIS  –  1.000.000 kr.
arTTré ehf.  –  Inspira-Minjagripir af Vesturlandi  –  1.000.000 kr.
Asco Harvester ehf.   –  Umsóknarvinna með EVRIS  –  1.000.000 kr.
Hótel Borgarnes ehf.   –  Heimskautasafn (Polar Museum)  –  600.000 kr.
Ásdís Haraldsdóttir  –  Hestamennska-Fræðslu og upplýsingavefur  –  450.000 kr.
Clemens Van de Zwet   –  Tulipanaræktun  –  450.000 kr.
Báran Brugghús ehf.  –  Báran Brugghús  –  400.000 kr.
Efra-Skarð ehf.  –  Efra-Skarð – markaðsstarf   –  400.000 kr.
Hlíðarmúli ehf.  –  Hlíðarmúli – markaðsstarf  –  400.000 kr.
Keilufélag Akraness  –  Kúlan  –  400.000 kr.
Lúðvík Karlsson  –  Markaðssetning og kynning á starfsemi  –  400.000 kr.
Ungmennafélag Grundarfjarðar  –  Skíðasvæði Snæfellsness  –  400.000 kr.

Fulltrúar þeirra sem hlutu styrk úr Uppbyggingarstjóði Vesturlands. Mynd: Skessuhorn, MM