Fjármálaráðstefna sveitarfélaganna, sem haldin er af Sambandi íslenskra sveitarfélaga á hverju hausti, fór fram á Hilton Reykjavik Nordica hótelinu á fimmtudag og föstudag í síðustu viku, 11. – 12. október.
Meginþema ráðstefnunnar að þessu sinni var að ræða frá ýmsum hliðum verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, ásamt þeim gráu svæðum sem óskýr verkaskipting leiðir til í opinberri þjónustu. Fjármálaráðstefnan er fjölmennasti viðburður ársins hjá sveitarstjórnarmönnum, en þátttakendur eru að jafnaði vel yfir 400 talsins. Mörg áhugaverð erindi er varða verkefni og fjárhag sveitarfélaga voru flutt á ráðstefnunni á fimmtudeginum, en á föstudaginn voru svo haldnar fjórar málstofur þar sem fjallað var um afmarkaða þætti í rekstri sveitarfélaga. Viðfangsefnin á málstofunum voru: fjármál, fræðslumál, velferðarmál auk uppbyggingar og innviða. Starfsmaður SSV, Margrét Björk flutti erindi á málstofu um innviði og uppbyggingu og fjallaði þar um áfangastaðaáætlanir. Hér er hægt að hlýða á erindið: https://vimeo.com/294764489
Einnig er hægt að hlýða á önnur erindi sem flutt voru á ráðstefnunni á vef Sambands íslenskra sveitarfélaga: https://www.samband.is/verkefnin/fjarmal-sveitarfelaga/fjarmalaradstefnur/fjarmalaradstefna-2018/