Ný Glefsa kom út í dag sem bar titilinn: „Íbúðaverð víða um land gagnvart Reykjavík“. Þar kemur fram að munur á fermetraverði einbýlishúsa á Vesturlandi gagnvart Reykjavík lækkar ef marka má viðskipti fyrsta hálfa árið 2025 borið saman við lengra tímabil (2021-2025). Minnstur er þessi munur 2021-2025 gagnvart Akraneskaupstað þar sem fermetraverð var 27% lægra, 42% í Borgarbyggð og 45% í Stykkishólmsbæ/Sveitarfélaginu Stykkishólmi. Mestur var hann 67% í Dalabyggð, 64% Snæfellsbæ og 58% í Grundarfjarðarbæ. Þessi munur var minni fyrsta hálfa árið 2025 í öllum sveitarfélögum nema Snæfellsbæ. Augljóst er af greiningunni að nálægð við Reykjavík dregur úr þessum mun sem og fjöldi íbúa í hverju sveitarfélagi eða þéttbýli. Hér er um einföld meðaltöl að ræða og viðskipti á árinu 2025 ekki mikil og þess vegna meira að marka tölurnar yfir lengra tímabil. Eingöngu voru þau sveitarfélög talin með sem höfðu póstnúmer fyrir einhvern þéttbýliskjarna. Margt fleira er þarna að finna. Glefsuna má sjá hér (SMELLIÐ).