Dala Auður fer af stað

SSVFréttir

Um helgina var haldið íbúaþing i Dalabyggð en það markaði upphaf að þátttöku Dalamanna í verkefninu „Brothættar byggðir“, sem er verklag þróað af Byggðastofnun. Meginskilaboðin sem komu út úr kraftmiklu íbúaþinginu var að nauðsynlegt er að auka fjölbreytni atvinnutækifæra og efla það sem fyrir er og eru bættir innviðir; vegir, fjarskipti, þriggja fasa rafmagn og aukið framboð íbúðar- og atvinnuhúsnæðis algjör forsenda þess að svo megi verða. Það mættu um 50 heimamenn og „hálfbúar“ á þingið og ræddu um stöðu og tækifæri Dalabyggðar.

Verkefnið sem framundan er fékk nafnið Dala Auður og að því standa, auk Byggðastofnunar, Dalabyggð, Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi og síðast en ekki síst íbúarnir sjálfir. Verkefnisstjórn er skipuð fulltrúum þessara aðila og nýráðinn verkefnisstjóri, Linda Guðmundsdóttir, flytur í Dalina og tekur til starfa í sumar.

Virk þátttaka íbúa er einn af hornsteinum verkefnisins „Dala Auður“ og mun verkefnisáætlun til allt að fjögurra ára, byggja á skilaboðum þingsins, en því stýrði Sigurborg Kr. Hannesdóttir hjá ILDI.

Nánar má lesa um framgang íbúaþingsins á heimasíðu Byggðastofnunar eða með því að smella hér: Dala Auður; stóra verkefnið í Dalabyggð er að bæta innviði

Verkefnastjórnin ásamt nýráðnum verkefnisstjóra Linda Guðmundsdóttir nýráðin verkefnastjóri „Brotthættra byggða“ í Dalabyggð en verkefnið fékk nafnið Dala Auður á þinginu