Beint frá býli dagurinn um allt land – Afmælishátíð á Háafelli-Geitfjársetri

SSVFréttir

Víða á Íslandi má finna bændamarkaði, bæði í dreifbýli og þéttbýli. Sumir þeirra eru aðeins starfræktir á sumrin, en aðrir árið um kring. Vesturland er þar engin undantekning og víða um landshlutann má nálgast vörur merktar „Frá fyrstu hendi“ og/eða „Sveitamatur“ sem eru gæðamerki félagsins Beint frá býli, á matvælum íslenskra sveita þar sem framleiðslan byggir eingöngu á íslensku hráefni og íslenskri framleiðslu. Starfsemi og býli sem falla undir allar íslenskar kröfur um gæði, rekstur og eftirlit og geta sýnt fram á nauðsynlega viðurkenningu á slíku geta merkt vörur sínar merkjum félagsins.

Þann 20. ágúst næstkomandi mun Beint frá býli halda upp á 15 ára afmæli félagsins með pompi og prakt um allt land!
Á Vesturlandi verður viðburðurinn haldinn á Háafelli í Hvítársíðu af ábúendum.
Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi er styrktar- og samstarfsaðili hátíðarinnar.
Gestir munu geta notið þess sem Háafell – Geitfjársetur hefur upp á að bjóða og kynnst heimavinnsluaðilum frá lögbýlum á Vesturlandi – sem eru félagsmenn í Beint frá býli, en þeir verða á staðnum þennan dag til að kynna og selja vörur sínar og segja frá starfseminni.
Afmæliskaka, kaffi og djús er í boði Beint frá býli. Kvenfélag Hvítársíðu mun selja veitingar (pylsur og bakkelsi) auk þess að vera með skottsölu/nytjamarkað.
Háafell – Geitfjársetur býður frítt til geita.
Hoppukastali verður á staðnum fyrir börnin.
Hlökkum til að sjá sem flesta og eiga góðan afmælisdag saman!