Áfangastaðaáætlun Vesturlands fer vel af stað.

SSVFréttir

Vinna við Áfangastaðaáætlun ferðamála á Vesturlandi (ÁFÁ Vest.) er nú farin að skila árangri við framþróun ferðamála á Vesturlandi. Búið er að skila inn til Ferðamálastofu (FMS) sóknaráætlun ferðamála þ.e. niðurstöðum úr áætlunarvinnunni, framtíðarsýn og aðgerðaáætlun Áfangastaða-áætlunar ferðamála á Vesturlandi 2018-2020. Það var þó gert með fyrirvara um að eftir væri að kynna þessa vinnu og niðurstöður áætlunarinnar fyrir nýjum sveitarstjórnum á Vesturlandi. Reiknað er með að farið verði í heimsóknir til sveitafélaganna að afloknum sumarfríum í lok ágúst til að kynna ÁFÁ Vest. og þau verkefni sem framundan eru í þessari vinnu. Eftir þessar heimsóknir til sveitarfélaganna og yfirferð á Áfangastaðaáætluninni ef ástæða þykir til, verður gerð myndræn og aðgengileg samantekt úr Áfangastaðaáætlun Vesturlands og það plagg kynnt fyrir aðilum í ferðaþjónustu og almenningi á öllum svæðum á Vesturlandi.

Sameiginleg áhersluatriði framtíðarsýnar og meginmarkmið Áfangastaðaáætlunar Vesturlands sem unnin voru á opnum fundum og af svæðisráði og vinnuhópum áfangastaðaáætlunar á öllum vinnusvæðum á Vesturlandi eru eftirfarandi:

Úr framtíðarsýn Meginmarkmið
Vesturland hefur sterka og jákvæða ímynd sem heilsárs áfangastaður með fjölbreytta náttúru, sögu, menningu, mannlíf og matarauð og er því eftirsóttur valkostur fyrir íbúa og gesti.
 1. Sterk og jákvæð ímynd.
 2. Vesturland er eftirsóttur valkostur fyrir íbúa og gesti.
 3. Vesturland er þekkt fyrir fagra náttúru, áhugaverða sögu, menningu og matarauð.
Gestir og heimamenn geta ferðast um svæðið upplýstir, með vitund, virðingu og sátt varðandi viðkvæma náttúru, lífríki, samfélag og umhverfi.
 1. Vönduð upplýsingagjöf um náttúru, lífríki samfélag og umhverfi.
Áhersla er á að öryggi fólks, náttúru og lífríkis sé tryggt, áningarstaðir vel úthugsaðir, einnig að upplýsingar og góð þjónusta sé til staðar.
 1. Stuðla að bættu öryggi íbúa, gesta, náttúru og lífríkis.
 2. Heildrænt skipulag áfanga- og áningarstaða.
 3. Góð þjónusta og afþreying er til staðar.
Samgöngur í landshlutanum eru góðar bæði til sjós og lands allt árið og áhersla er á öryggi og gott viðhald vega.
 1. Öruggar samgöngur til sjós og lands allt árið.
Grunnþjónusta er góð á Vesturlandi og jákvæð viðhorf íbúa til ferðamála eru ríkjandi.
 1. Grunnþjónusta er góð.
 2. Jákvæð viðhorf íbúa til ferðamála.
Sjálfbær ferðaþjónusta með áherslu á náttúruvernd, þjónustu- og vöruval úr héraði er í hávegum höfð til að stuðla að gæða náttúru- og menningar upplifun til framtíðar á Vesturlandi.
 1. Áhersla á ábyrga ferðaþjónustu sem stuðlar að sjálfbærri nýtingu auðlinda og notar hráefni og vöruval úr heimahéraði.

Í framhaldi af skilum á áðurnefndri sóknaráætlun ÁFÁ Vest., bauð Ferðamálastofa Markaðsstofu Vesturlands að gera samning um vinnslu á fjórum framhaldsverkefnum af ÁFÁ vinnunni.        Þetta eru verkefni sem unnin verða samkvæmt þeim áherslum sem lagðar voru í vinnu við ÁFÁ Vest. og eru eftirfarandi:

 • Að forgangsraða uppbyggingu göngu-, reið- og hjólaleiða á Vesturlandi.
 • Að forgangsraða innviðauppbyggingu á áningar- og áfangastöðum á Vesturlandi.
 • Að stuðla að vöruþróun og klasasamstarfi menningar- og sögutengdrar ferðaþjónustu á Vesturlandi.
 • Að koma saman vinnuhóp hagaðila í klasasamstarf um hæglætisferðamennsku í Dalabyggð.

Markaðsstofa Vesturlands fær veglegan styrk úr verkefnasjóði Ferðamálastofu( 20. milljónir) til að vinna þessi verkefni á árunum 2018-2020. Reiknað er með að vinna við þessi verkefni fari á fullt skrið eftir sumarleyfi um miðjan ágúst.

Einnig var óskað eftir að Vesturlandsstofa sendi inn til Ferðamálastofu greinargerð með 3-6 áherslu- og forgangsverkefnum sem vilji væri til að vinna á hverju svæði á Vesturlandi á tímabilinu 2018-2020.  Þennan lista á að nota til hliðsjónar við úthlutun fjármagns og afgreiðslu styrkumsókna á umræddu tímabili. Skýrt var tekið fram við skil á þessum áherslu- og forgangslista að það stæði fyrir dyrum vinna við gerð forgangslista um uppbyggingu bæði útivistarstíga og áningastaða á Vesturlandi og gæti sú vinna breytt þeim áhersluverkefnum sem send voru inn.

Það eru því spennandi tímar framundan við verkefnavinnu og vöruþróun ferðamála á Vesturlandi og mikilvægt að þeir sem hafa áhuga og hag af þessari vinnu leggi sitt að mörkum og vinni að þessum verkefnum með Markaðsstofu Vesturlands.