Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi hafa gefið út skýrsluna „Kreppan á Vesturlandi: Áhrif 10% samdráttar á atvinnustig á Vesturlandi, brotið upp eftir sveitarfélögum“.
Í skýrslunni gerir Vífill Karlsson, hagfræðingur tilraun til að spá fyrir um áhrif 10% samdráttar í landsframleiðslu (VLF) á atvinnustig (ársverk) og atvinnutekjur í einstökum sveitarfélögum á Vesturlandi. Hægt er að nálgast skýrsluna á PDF-formi hér.
Niðurstöður gáfu til kynna að áhrifin verði neikvæð á bilinu 1,3-5,3%, mesti í Borgarbyggð 5,3%. Á Akranesi verði þau neikvæð um 2,4%, 2,6% í Grundarfirði, 3,5% í Stykkishólmi og 1,3% í Snæfellsbæ. Í öðrum sveitarfélögum á Vesturlandi mældust áhrifin ekki marktæk.
Niðurstöður bentu einnig til þess að áhrif á ársverk verði mest í þeim sveitarfélgöum sem eru næst höfuðborgarsvæðinu og verði meiri á atvinnutekjur en ársverk. Í þeim sveitarfélögum sem byggja á sjávarútvegi og öðrum útflutningsgreinum verði áhrifin minni og að stóriðjan á Grundartanga dempaði sveifur á Akranesi.
Einnig kom fram að á tæplega tveimur áratugum (1991-2008) hefur störfum í landbúnaði og fiskveiðum fækkað um tugi prósenta og í fiskvinnslu um helming.
Óvenju mikil skuldsetning veldur óvissu í spánni og áhrif á atvinnuleysi eru einnig mikilli óvissu háð.