Vaxtarsprotaverkefnið í Dölum og Reykhólahreppi

Samtök Sveitarfélaga á VesturlandiFréttir

Nú á haustmánuðum stendur fólki í sveitum Dalabyggðar og Reykhólahrepps til boða þátttaka í stuðningsverkefni sem lýtur að eflingu atvinnusköpunar í sveitum. Verkefnið, sem nefnt er Vaxtarsprotar, er á vegum Impru á Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Framleiðnisjóðs landbúnaðarins. Framkvæmd verkefnisins verður í samstarfi við Búnaðarsamtök Vesturlands og Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða. Bækling má finna hér


Í Vaxtarsprotaverkefninu felst námskeið um mótun viðskiptahugmynda og stofnun og rekstur fyrirtækja. Einnig verður boðið upp á einstaklingsbundna leiðsögn, auk þess sem ýmsir styrkjamöguleikar verða kynntir. Í tengslum við verkefnið vinna allir þátttakendur að eigin verkefni sem lýtur að atvinnusköpun í heimahéraði. Stefnt er að því að stofnaðir verði tveir námskeiðshópar, einn á Reykhólum og annar í Búðardal. Námskeiðahald hefst í lok september og lýkur um 10. desember. Verkefnið er opið öllum íbúum á viðkomandi svæði, en ábúendur á lögbýlum hafa forgang. Fulltrúum starfandi fyrirtækja er einnig velkomið að taka þátt í verkefninu með það að markmiði að vinna að frekari framþróun eða mótun nýjunga í sínum rekstri. Þátttaka í Vaxtarsprotum er án endurgjalds.

Tekið við skráningum til 22. september

Nálgast má frekari upplýsingar um framkvæmd Vaxtarsprota, sem og skrá sig til þátttöku, hjá Elínu Aradóttur verkefnisstjóra hjá Impru í síma 4607973 eða með tölvupósti á elina@nmi.is. Upplýsingar er einnig að finna á vefsíðu Impru http://www.impra.is. Tekið er við skráningum til 22. september.