Umferð og ástand vega á Vesturlandi

Samtök Sveitarfélaga á VesturlandiFréttir

Í dag kom út Hagvísir um umferð og ástand vega á Vesturlandi hjá Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi sem byggir á staðtölum frá Vegagerðinni og skoðanakönnunum meðal íbúa og fyrirtækja á Vesturlandi. Megin niðurstaðan er sú að íbúar og fyrirtæki á Vesturlandi telja vegakerfið fara versnandi þar en á sama tíma verða mikilvægari þáttur fyrir áframhaldandi veru þeirra þar. Verst er þetta í Dölunum. Í þessu samhengi var áhugavert að sjá að umferð hefur aukist hlutfallslega mest til Vesturlands frá 1980, borið saman við Reykjanes og Suðurland. Hagvísinn má finna með því að smella hér.


Aðrar helstu niðurstöður voru:

· Á Vesturlandi býr tæplega 5% landsmanna en þar er um 14% allra akvega á Íslandi í kílómetrum talið. Þá er 6% vegakerfisins í Borgarbyggð og 3% í Dölunum en eingöngu 1% þjóðarinnar býr í Borgarbyggð og 0,2% í Dölunum.

· Þegar horft er til allra landshlutanna átta á Íslandi er bundið slitlag á flestum vegum á Suðurnesjum árið 2014 (84%) en fæstum á Norðurlandi vestra (29%). Vesturland ásamt Norðurlandi eystra verma næst neðsta sætið í þessum samanburði þar sem 39% vega hafa bundið slitlag.

· Af átta landshlutum var slysatíðni sú þriðja mesta á Vesturlandi (0,99) ásamt Vestfjörðum og Norðurlandi eystra, kom í kjölfar Austurlands (1,56) og höfuðborgarsvæðisins (1,22). Innan Vesturlands var slysatíðnin hins vegar mest í Dalabyggð (1,82) en minnst í Hvalfjarðarsveit (0,67). Dalabyggð hafði fimmta hættulegasta vegakerfið meðal íslenskra sveitarfélaga en Hvalfjarðarsveit níunda öruggasta vegakerfið.

· Af þremur aðalumferðaræðum til og frá höfuðborgarsvæðinu, Vesturlandsvegi, Suður-landsvegi og Reykjanesbraut, hefur Vegagerðin lagt minnst til Vesturlandsvegar. Þegar kostnaðurinn var leiðréttur fyrir íbúafjölda og vegalengd var minnst lagt til Suður-landsvegar en mest til Reykjanesbrautar.

· Frá 1980 hefur umferðin aukist hlutfallslega mest til Borgarfjarðar, síðan til Snæfellsness, svo Akraness og síst til Dalanna.

· Umferð á Vesturlandi jókst hlutfallslega mest á Snæfellsnesi (17%) á milli áranna 2012 og 2014. Hún jókst minna á Borgarfjarðarsvæðið, minnst á Akranes og í Hvalfirði en dróst saman í Dölunum (4%).

· Á Akranesi eru nánast engir malarvegir og eru þeir í 5. sæti allra sveitarfélaga(74), hvað varðar hlutfall vega með bundnu slitlagi. Skorradalshreppur vermir 73. sætið þar sem eingöngu 16% eru þannig búnir, Dalabyggð 70. sætið og Borgarbyggð það 64.

· Umferð ferðamanna jókst um 40% við Svörtuloft á Snæfellsnesi á milli áranna 2014 og 2015 en um 36% við Hraunfossa í Borgarfirði. Á sama tíma jókst umferðin um 32% í Haukadal við Gullfoss.