Menningarsamningur á Vesturlandi ?

Samtök Sveitarfélaga á VesturlandiFréttir

Þrátt fyrir viðræður fulltrúa SSV og menntamálaráðuneytisins þá hefur ekki náðst menningarsamningur við ráðunetyið. Er þetta boðleg staða spyrja heimamenn sig? Hefur þessi staða víðtækari sálræn áhrif en við gerum okkur grein fyrir? Hvers vegna er Vesturland orðinn eini landshlutinn, utan höfuðborgarsvæðisins og Reykjaness, sem ekki hefur svæðis- útvarp/stöð í sínum landshluta?


Á árinu 2001 var þess farið á leit við Menntamálaráuneytið, og menntamálaráðherra, Björn Bjarnason, að grundvöllur myndi skapast fyrir menningarsamningi milli Vesturlands og ráðuneytisins. Var þetta gert í framhaldi af nýútkominni skýrslu starfshóps sem fjallaði um það hvernig efla mætti menningarstarf á landsbyggðinni. Sendi stjórn SSV beiðni til Björns Bjarnasonar, þáverandi menntamálaráðherra, og þess farið á leit við ráðherra að grundvöllur myndi skapast fyrir menningarsamningi milli Vesturlands og ráðuneytisins.

Niðurstaðan varð sú að samþykkt var að undirbúningsvinna hæfist og eins og orðrétt sagði í bréfi frá Menntamálaráðuneytinu ,,Verði við það miðað að unnt verði að ljúka samningsgerð á árinu 2002.

Á aðalfundi SSV sem haldinn var 23. ágúst 2002 var stefnumótun SSV í menningarmálum formlega gefin út og kynnt sveitarstjórnarmönnum og menntamálaráðherra, Tómasi Inga Olrich, sem sat fundinn. Höfðum við gert okkur vonir um að ráðherra yrði tilbúinn að skrifa undir samning við sveitarfélögin á umræddum fundi en í viðræðum okkar við fulltrúa ráðuneytisins höfðum við gælt við þá hugmynd að það tækist. Svo varð hins vegar ekki. Í framhaldinu vildum við trúa því að samningur myndi nást fyrir kosningar en svo varð hins vegar ekki heldur þrátt fyrir það að ríkisstjórn Íslands sýndi það með myndarlegu framlagi til menningarhúsa á landsbyggðinni að mikill metnaður virðist fyrir eflingu menningarstarfsemi á landsbyggðinni.

Væntingar Vestlenskra sveitarstjórnarmanna og íbúa fyrir menningarsamningi voru miklar og því urðu það okkur mikil vonbrigði að fá ekki samning á þessu ári. Menningarsamningur er nú starfræktur á Austurlandi 2. árið í röð en fyrir skömmu kom í heimsókn til okkar Signý Ormarsdóttir starfsmaður Menningarráðs Austurlands en eins og flestum er kunnugt er Menningarráð Austurlands nú á sínu öðru starfsári. Hún sagði okkur frá því hvernig þeirra menningarstarf er farið að virka í gegnum þennan formlega vettvang sem hún starfar fyrir. Hún staðfesti það sem fram kemur í stefnumótun okkar Vestlendinga að með þessum farvegi sem um ræðir þá verða menningarmálin sýnilegri, metnaðarfyllri og markvissari, vettvangurinn opni fleiri leiðir til fjáröflunar til menningarstarfs, auk þess sem hún sem starfsmaður er orðin viðurkenndur ráðgjafi menningarmála í landshlutanum.

Hvað eiga Vestlendingar að gera?

Sá hópur sem unnið hefur að mótun stefnu í menningarmálum fyrir Vesturland er orðinn leiður og hugsi yfir stöðu mála. Finnst sumum að Vesturland sé ekki með á menningarkortinu og sú staða hafi sálfræðilega miklu víðtækari áhrif en við gerum okkur grein fyrir. ,,Hlaðið” sé undir aðra landshluta sem geri það að verkum að Vesturland verði lítt sýnilegt. Því til stuðnings má nefna fleiri þætti en Vesturland er í dag orðinn eini landshlutinn, utan höfuðborgarsvæðisins og Reykjaness, sem ekki hefur svæðis- útvarp/stöð í sínum landshluta.

Er þetta boðlegt ?