Í dag var sett á vefinn undir „útgáfa“ nýr Hagvísir Vesturlands. Í þessum Hagvísi er farið yfir íbúaþróun ungs fólks á Vesturlandi. Ungt fólk á aldrinum 20-40 ára, er mikilvægt hverju samfélagi þar sem það fæðir af sér nýja íbúa, er gjarnan vinnusömustu þegnarnir og er að byggja upp sín heimili. Því er almennt talið mjög óheppilegt ef fækkar í þessum aldurshópi.
Í ljós kom að ungum íbúum fækkaði hlutfallslega minnst á Vesturlandi í samanburði við aðra landshluta ef frá eru talin höfuðborgarsvæðið og Suðurnesin.
Á heildina litið fækkaði ungu fólki á sunnanverðu Vesturlandi frá 1991 fram til ársins 1998 en fjölgaði eftir það, sérstaklega frá árinu 2005, en hefur svo aftur fækkað frá bankahruni.
Á norðanverðu Vesturlandi hafði ungum íbúum almennt fækkað frá 1991 en hefur heldur fjölgað frá bankahruni þó undantekningar séu frá því.
Þegar horft var til íbúakannana sem gerðar hafa verið á Vesturlandi kom í ljós að atvinnuöryggi, launatekjur og þjónusta við barnafólk, einkum gæði grunnskóla og barnaskóla, skipta mestu máli fyrir áframhaldandi búsetu þeirra á Vesturlandi. Þá er atvinnuöryggi áberandi mikilvægast þessum íbúum.
Annað áhugavert sem kemur fram í hagvísinum er:
- Ungu fólki fjölgaði um 24% á höfuðborgarsvæðinu á tímabilinu 1991-2011 á meðan því fækkaði um 13% utan þess.
- Ungu fólki fækkar á Norðurlandi eystra þrátt fyrir sterkan þjónustukjarna og öflugan háskóla á Akureyri.
- Hlutfallslega, fækkar ungu fólki í öllum landshlutum – líka á höfuðborgarsvæðinu.
- Á Vesturlandi er mest af ungu fólki á Snæfellsnesi, einkum í Snæfellsbæ, Helgafellssveit og Grundarfjarðarbæ.
- Ungu fólki með erlendan ríkisborgararétt hefur fjölgað á Vesturlandi en hefur fækkað eftir hrun nema í Snæfells og Stykkishólmsbæ.
- Ungu fólki hafði fækkað frá 1991-1998 á Akranesi og í Borgarbyggð en þá fjölgaði því aftur. Þetta ár opnuðu Hvalfjarðargöng, Norðurál tók til starfa og nemendum fjölgaði meira við háskólana í Borgarfirði.
- Fjölgun ungs fólks fer oft saman með auknum umsvifum í atvinnulífinu: Fjölgun fiskiskipa, aukin fiskvinnsla, ný stóriðja, stækkun háskóla.
- Eftir því sem næst verður komist virðist mannfjöldi á Vesturlandi lítið hafa breyst á tímabilinu 1703-1960.
- Vestfirðingar eru færri í dag en árið 1703 þegar fyrsta manntal var gert á Íslandi.