Fab Lab smiðja Vesturlands á Akranesi tekin til starfa

SSVFréttir

Síðast liðinn föstudag var skrifað undir samstarfssamning um rekstur Fab Lab smiðju Vesturlands á Akranesi. Fab lab smiðjan er komin í stórt og glæsilegt húsnæði á Breiðinni og er það fagnaðarefni hvað vel hefur tekist til. Smiðjan verður nokkurs konar móðurstöð fyrir aðrar Fab Lab smiðjur á Vesturlandi og víðtækur samstarfsvettvangur skóla og fyrirtækja. Að henni standa 23 aðilar af Akranesi og víðar af Vesturlandi auk aðkomu tveggja ráðuneyta: Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og Mennta- og menningarmálaráðuneytið.

„Hér viljum við skapa aðstöðu fyrir alla aldurshópa til að koma saman, vinna saman og skapa saman. Samstarfssamningurinn táknar það og dregur saman ólíka aðila að stofnun, rekstri og samvinnu við þróun Fab Lab smiðju Vesturlands. Stafræn smiðja sem þessi býður uppá óteljandi tækifæri og finnum við mikinn vilja og samhug í að gera gott enn betra,“ sagði Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri Akraneskaupstaðar í ræðu sinni við þetta hátíðlega tilefni.

Framundan er að ljúka undirbúning smiðjunnar og opna hana fyrir hópa og almennings. Fab Lab smiðjan heldur úti upplýsingasíðu á Facebook. Stefnt að því að auglýsa opna tíma í smiðjunni um mánaðamótin maí/júní og í ágúst næstkomandi mun taka í gildi stundatafla fyrir smiðjuna þar sem hópar fá úthlutuðum tímum.

Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi hefur stutt við Fab Lab smiðju Vesturlands undanfarin ár í gegnum Sóknaráætlun Vesturlands en áður starfaði smiðjan í gamla Landsbankahúsinu við Suðurgötu. Það er engin breyting þar á og var samþykkt í stjórn SSV að veita samtals 4 milljón kr. stuðning til Fab Lab smiðjunnar árin 2021 og 2022.

Nánari umfjöllun í Skessuhorni

Að lokinni undirritun samninga var stillt upp í hópmynd af fulltrúum þeirra sem tengjast Fab Lab smiðju Vesturlands. Ljósm. Guðni Hannesson.