Jólatónleikar á Vesturlandi

SSVFréttir

Nú á tímum Covid19 er hægara sagt er gert að halda uppi hefðbundnu tónleikahaldi á Vesturlandi sem og annarsstaðar. En listafólkið í landshlutanum lætur ekki deigan síga og í flestum plássum hafa tónlistarmenn flutt tónleika á streymi. Það er því engin ástæða til að örvænta, heldur smella sér í jólagírinn með því að njóta tónlistarinnar heima í stofu. Það er greinilegt að Vesturland er komið í jólagírinn!

Mynd: Inga Björnsdóttir

Listvinafélag Grundarfjarðar heldur aðventutónleika hvern sunnudag á aðventunni í ár. Viðburðurinn er í tengslum við „Jólagluggann“, sem er jóladagatal Grundarfjarðarbæjar. Íbúar og gestir leita að jólaglugga dagsins í bænum og birta mynd af honum á samfélagsmiðlum.  Þannig vill Grundarfjarðarbær stuðla að skemmtilegri samveru fjölskyldunnar á heilsueflandi hátt. Tónleikunum og Jólaglugganum er deild á facebook síðu Grundarfjarðabæjar.
Nánar um viðburðinn

Jólatónleikar í Snæfellsbæ verða í beinu streymi á facebook síðu bæjarins. Sent verður frá Ólafsvíkurkirkju þann 13. desember klukkan 20:00 og munu framúrskarandi tónlistarfólk úr heimabyggð stíga á stokk.
Nánar um viðburðinn

Hljómlistarfélag Borgarfjarðar færir sína árlegu jólatónleika á netið og er sent úr Landnámssetrinu í Borgarnesi. Tónleikarnir eru þann 17. desember og verða í streymi á facebooksíðu félagsins. Tónleikarnir eru í samvinnu við Kvikmyndafélag Borgarfjarðar.
Nánar um viðburðinn

Dalatónar munu streyma í beinni útsendingu jólatónleikum frá Dalahyttunum. Tónleikarnir fara fram 5. desember og á Youtube síðu Dalabyggðar, Dalabyggð TV. Nánari upplýsingar um tónleikana má sjá á facebook viðburði tónleikanna. Jafnframt er framundan aðrir jólatónleikar Dalatóna með félögum úr harmonikkufélaginu Nikkólínu og verður sá viðburður auglýstur síðar.
Nánar um viðburðinn

Síðast en ekki síst syngur Skaginn inn jólin en á hverjum degi fram að jólum opna Hlédís og Óli Palli einn glugga sem er tónlistaratriði heimamanna, sent úr Stúkuhúsinu að Byggðasafninu á Görðum. Hægt er að horfa á streymið á facebook síðu verkefnisins – Skaginn syngur inn jólin
Nánar um viðburðinn

Myndin sem fylgir þessari frétt sýnir jólaandann í Grundarfirði, og er eftir Ingu Björnsdóttur sem er búsett í bænum. Myndin er birt með góðfúslegu leyfi Grundarfjarðarbæjar.