Kallað er eftir erindum á Byggðaráðstefnuna sem haldin verður 16.-17. október 2018 í Stykkishólmi.
Umfjöllunarefni ráðstefnunnar er: Byggðaþróun og umhverfismál, hvernig getur blómleg byggð og náttúrvernd farið saman?
Tilgangur ráðstefnunnar er að tengja saman fræðilega og hagnýta þekkingu á byggðaþróun með það að markmiði að stuðla að sjálfbærri þróun byggðar um allt land. Ráðstefnan er vettvangur fólks úr háskólum, stjórnsýslu, sveitastjórnum og annarra sem áhuga hafa á byggðaþróun og umhverfismálum. Leitast verður við að ná fram ólíkum sjónarmiðum þeirra sem vinna að rannsóknum og stefnumótun á vettvangi byggðamála með áherslu á umhverfismál.
Kallað er eftir erindum frá fræða- og háskólasamfélaginu, stefnumótendum og þeim sem vinna á vettvangi þar sem fjallað er um stöðu og þróun byggðar. Erindin geta í víðum skilningi fjallað um sambúð manns og náttúru, m.a. í tengslum við það hvernig landi er ráðstafað til atvinnuuppbyggingar, samgangna og/eða búsetu og hver áhrif þeirrar ráðstöfunar eru á efnahagslega, félagslega og umhverfislega þætti.
Lögð er áhersla á að fyrirlesarar hafi rúman efnisramma og geti fjallað bæði um einstaka þætti eða fleiri eftir eðli máls. Ætlast er til að efnið tengist meginþræðinum þ.e. byggðaþróun og umhverfismálum.
Tillaga að fyrirlestri með stuttri innihaldslýsingu, 200-300 orða útdrætti, sendist til Byggðastofnunar á netfangið sigridur@byggdastofnun.is eigi síðar en 27. ágúst 2018.
Að ráðstefnunni standa Byggðastofnun, Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi, Samband íslenskra sveitarfélaga og Stykkishólmsbær.