Ályktanir um samgöngumál
Á fundi stjórnar SSV þann 13 júní s.l var ályktað um samgöngumál. Kynntar voru ályktanir um samgöngumál frá fundi bæjarstjórnar Akraness nr. 1276 þann 12. Júní s.l. um Sundabraut og Vesturlandsveg á Kjalarnesi.
Stjórn SSV tekur undir umræddar ályktanir bæjarstjórnar Akraness enda hefur ítrekað verið ályktað um þær á þingum SSV og í Samgönguáætlun Vesturlands kemur skýrt fram að sveitarfélögin á Vesturlandi líta á þessar framkvæmdir sem einhverjar mikilvægustu samgöngubætur sem hægt er að fara í með hliðsjón að hagsmunum Vestlendinga. Hagsmunir Vestlendinga eru ríkir, en þessar framkvæmdir þjóna einnig íbúum á landinu öllu.
Stjórn SSV ályktar eftirfarandi um Sundabraut
„Stjórn SSV skorar á Vegagerðina og Reykjavíkurborg að hefja án tafar undirbúning að lagningu Sundabrautar, sem bætir umferð til og frá höfuðborginni og eykur umferðar- og almannaöryggi. Því fyrr sem raunhæfur undirbúningur verkefnisins hefst eru líkur á að framkvæmdir geti farið af stað innan fárra ára. Þetta verkefni þolir enga bið“
Stjórn SSV ályktar eftirfarandi um Vesturlandveg á Kjalarnesi
„Það er löngu ljóst að ástand Vesturlandsvegar um Kjalarnes er með öllu óásættanlegt og öryggi vegfarenda er teflt í hættu. Umferð vex hratt og á sama tíma verður ástand vegarins sífellt verra. Því ríður á að nú þegar verði farið í lagfæringar á veginum til að bæta slæmt ástand hans. Þá liggur fyrir að skipulagsvinnu við tvöföldun vegarins er að ljúka og því krefst stjórn SSV þess að strax í haust hefjist framkvæmdir við tvöföldun vegarins að fullum krafti og þeim verði lokið á allra næstu árum“