„ Dagana 25 til 27 apríl var sex manna hópur frá Voru-sýslu í Eistlandi í heimsókn á Vesturlandi.
Tilgangur heimsóknarinnar var að kynna sér ferðaþjónustu á Vesturlandi og markaðssetningu landshlutans. Heimsókn þeirra hófst á Akranesi þar sem Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri tók á móti hópnum og fræddi þau um Akranes og markaðssetningu bæjarins. Einnig var farið í heimsókn á Safnasvæðið og í Akranesvita.
Á miðvikudeginum fór hópurinn um Snæfellsnes þar sem þau fræddust um Svæðisgarð Snæfellsness, heimsóttu Þjóðgarðsmiðstöðina, fóru í Vatnshellinn og tóku hús á Kára í Frystiklefanum. Dagurinn endaði á kvöldverði í Bjargarsteini þar sem Tómas Kristjánsson ljósmyndari sagði frá hvernig ein lítil ljósmynd af Kirkjufellinu hefði breytt ýmsu.
Á fimmtudeginum heimsótti hópurinn Húsafell og fræddist um ferðaþjónustu og markaðssetningu á Húsafelli, auk þess að heimsækja Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri og kynna sér starfsemi umhverfis- og skipulagssviðs skólans og verkefni um Vesturland sem þar hafa verið unninn.
Í tengslum við heimsóknina var kynning á starfsemi Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi og Markaðsstofu Vesturlands, auk þess sem þau voru með kynningu á Eistlandi, Voru sýslu, starfsemi sveitarfélaga og ferðaþjónustu fyrir starfsmenn SSV.