Smásöluverslun á Vesturlandi

Samtök Sveitarfélaga á VesturlandiFréttir

Í dag kom út skýrsla um smásöluverslun á Vesturlandi hjá Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi sem byggir á viðtölum tekin í lok febrúar 2015. Hún var unnin með nemendum og tölfræðikennurum Menntaskóla Borgarfjarðar (MB) og Fjölbrautarskóla Snæfellinga (FSN). Aðalmarkmið könnunarinnar var að kanna búsetu viðskiptavina smásöluverslunar á Vesturlandi. Í svæðahagfræðilegu tilliti segir það að hvað miklu leyti smásöluverslun í Borgarnesi er útflutningsfyrirtæki sveitarfélagsins auk vægis ferðaþjónustu í verslun á svæðinu. Þess utan var hægt að greina ýmsa áhrifaþætti á kauphegðun viðskiptavinanna.


Helstu niðurstöður könnunarinnar eru sem hér segir:

  • Þátttakendur í könnuninni voru 568 talsins: 280 í Borgarnesi, 35 í Búðardal og 253 á Snæfellsnesi.
  • 46% þátttakenda voru teknir tali við Bónus (Stykkishólmi og Borgarnesi), 26% við Nettó Borgarnesi, 17% við Kassann Ólafsvík, 6% við Strax í Búðardal og 5% við Úrval Grundarfirði.
  • 62% viðmælenda voru konur og 38% karlar.
  • Meðalaldur þátttakenda var 43 ár.
  • Viðmælendur voru á aldrinum 14-93 ára.
  • 89% þátttakenda voru Íslendingar, 7% nýbúar og 4% útlendingar.
  • 31% af veltu smávöruverslunar í Borgarbyggð var útflutningur, 17% í Dalabyggð og 8% á Snæfellsnesi.
  • Verslun hvers og eins var að jafnaði 4.908 kr. í hverri verslunarferð á öllum svæðum en 5.407 kr. í Borgarnesi, 4.059 í Búðardal og 4.372 á Snæfellsnesi.
  • Fólk í sambúð verslar fyrir 37% hærri upphæð í hverri verslunarferð en þeir sem búa einir.
  • Föstudagsverslun hvers og eins er meiri en hina dagana.
  • Verslun hvers og eins var meiri í Bónus í Borgarnesi en Nettó sem nam 2.291 kr. í hverri verslunarferð.
  • Verslun hvers og eins var meiri í Kassanum Ólafsvík en Nettó sem nam 2.397 kr. í hverri verslunarferð.
  • Íbúar í Borgarfirði og Dölum versluðu fyrir 2.140 kr. lægri fjárhæð en íbúar á Snæfellsnesi í hverri verslunarferð.
  • Þeir sem búa á Íslandi eyða minna í hverri verslunarferð en þeir sem búa í öðrum löndum.
  • Fólk verslar meira í hverri verslunarferð með hverju ári sem það eldist frá 18 ára aldri að 49 ára, en eftir það verslar það minna í hverri ferð.

Rannsóknin fór þannig fram nemendur MB og FSN voru fengnir til að safna gögnum með þeim hætti að taka viðskiptavini tali þegar þeir komu út úr verslununum. Síðan skráðu þau gögnin, greindu og kynntu niðurstöður í kennslustund. Þetta unnu nemendur í nánu samstarfi við tölfræðikennara sinn og starfsmann SSV sem sáu um leiðbeiningar, leiðsögn og endurgjöf. Verkefnið er liður í því að tengja saman atvinnulíf og skóla.

Skýrslu yfir rannsóknina má nálgast hér