Frumkvöðull Vesturlands 2009 er Erpsstaðir í Dalabyggð.

Samtök Sveitarfélaga á VesturlandiFréttir

Þeir sem voru tilnefndir ásamt Frumkvöðli Vesturlands 2009
Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi standa árlega fyrir útnefningu á Frumkvöðli Vesturlands. Að þessu sinni voru 14 aðilar tilnefndir og fengu allir viðurkenningu á Frumkvöðladegi sem haldinn var 5. maí í Landnámssetrinu í Borgarnesi, en Erpsstaðir í Dalabyggð voru útnefndir Frumkvöðull Vesturlands 2009.

Ábúendur á Erpsstöðum eru Þorgrímur Einar Guðbjartsson og Helga Elínborg Guðmundsdóttir. Fyrir utan að vera með hefðbundinn búskap hafa þau með áræði og eljusemi byggt upp ferðaþjónustubýli sem leggur áherslu á menningartengda ferðaþjónustu.


Þau taka á móti fólki í gistingu og eru með litla gestamóttöku þar sem ferðalangar geta fræðst um landbúnað og lifnaðarhætti í sveitinni. Einnig eru þau með heimavinnslu á rjómaís sem þau selja beint til neytenda og hafa hug á því að auka fjölbreytnina og framleiða einnig skyr og osta. Þannig hafa þau leitast við að skapa sér tryggari afkomu á búi sínu jafnframt því að efla ferðamannaþjónustu í Dölunum.

Dómnefnd skipuðu Hrönn Ríkharðsdóttir, Kristjana Hermannsdóttir og Jenný Lind Egilsdóttir og er þetta í fimmta sinn sem Frumkvöðull Vesturlands er útnefndur. Auglýst var eftir tilnefningum í miðlum á Vesturlandi og var m.a. hægt að senda tilnefningar í gegnum vef Skessuhorns.