Í dag verður undirritaður verksamningur milli Sorpurðunar Vesturlands hf. og Óskataks ehf. í Kópavogi um jarðvinnu verk sem ber nafnið ,,Fíflholt stækkun – Rein 5.“
Verkið var boðið út í nóvember á síðasta ári og voru tilboð opnuð 8. desember. Alls buðu ellefu fyrirtæki í verkið og var einungis eitt þeirra hærra en leiðrétt kostnaðaráætlun verkfræðistofunnar Eflu, en hún hljóðaði upp á 593 milljónir króna. Lægsta tilboð átti Óskatak ehf. en tilboð fyrirtækisins var upp á 378 milljónir króna, eða 65% af kostnaðaráætlun.
Á síðasta ári voru 14.924 tonn af sorpi urðuð í Fíflholtum og var það 11% samdráttur á milli ára, að sögn Hrefnu B Jónsdóttur framkvæmdastjóra Sorpurðunar Vesturlands. Ef aukning verður í flokkun og þar með verðmætabjörgun úrgangs hjá atvinnulífi og sveitarfélögum má áfram búast við að dragi úr urðun sorps í Fíflholtum. Að sögn Hrefnu tekur urðunarrein númer 5 í Fíflholtum við af urðunarrein nr. 4 sem verið hefur í notkun undanfarin 14 ár. Sú rein gerir ekki meira en svo að endast fram til þess tíma að ný rein verður tilbúin, en fyrirhugað er að Óskatak eigi að ljúka framkvæmdum í apríl 2025. „Það er því nauðsynlegt að verkið hefjist sem fyrst og gangi samkvæmt áætlun,“ segir Hrefna. Hún lætur þess einnig getið að fjöldi tilboða undir kostnaðaráætlun beri vott um minnkandi verkefnastöðu á verktakamarkaði. „Hátt vaxtastig er farið að bíta í hjá atvinnulífinu,“ segir Hrefna.