Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, úthlutaði styrkjum að upphæð 130 milljónum króna til 12 verkefna á vegum sjö landshlutasamtaka sveitarfélaga.
Styrkjunum er ætlað að efla byggðir landsins og er úthlutað til sértækra verkefna á sóknaráætlanasvæðum í samræmi við stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2022-2036 (aðgerð C.1). Alls bárust 32 umsóknir um styrki að fjárhæð rúmar 857 m.kr. fyrir árið 2023.
Af þeim verkefnum sem hlutu styrki að þessu sinni eru tvö verkefni í þágu Dalabyggðar og eitt samstarfsverkefni sem snertir svæðið.
Verkefnin í Dalabyggð eru:
- Dalabyggð í sókn – ímynd, aðdráttarafl og staðarandi. Útbúa vörumerki og verkfærakistu fyrir Dalabyggð sem nýtist m.a. til að móta stefnu í markaðssetningu fyrir nýja íbúa, fjárfesta og í ferðaþjónustu. Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi hljóta styrk að upphæð 11.200.000.
- Iðngarðar í Búðardal. Þarfagreining og frumhönnun á atvinnuhúsnæði fyrir iðngarða, sem skapa á aðstöðu fyrir fyrirtæki og einstaklinga. Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi hljóta styrk að upphæð kr. 5.000.000.
Samstarfsverkefnið er:
- Verðmætasköpun á sauðfjárræktarsvæðum. Verkefnið er hvati til nýsköpunar og verðmætasköpunar í strjálbýli sem á mikið undir sauðfjárrækt og miðar að því að tryggja byggðafestu. Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi, Fjórðungssamband Vestfirðinga og Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra hljóta styrk að upphæð kr. 21.600.000.
Hægt er að nálgast nánari upplýsingar um úthlutanir og aðgerðir byggðaáætlunar á vef Stjórnarráðsins: Frétt – Tólf verkefni fá 130 milljónir til að efla byggðir landsins