Mannauðsstefna
Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi
1. Almennt
- Mannauðsstefna SSV tekur til alls starfsfólks, bæði fastráðins og tímabundinna ráðninga, óháð starfi og starfshlutfalli.
- Stefnan inniheldur bæði almenna stefnu og sértækar starfsreglur.
- Henni er ætlað að skýra megin sjónarmið, ásamt því að stuðla að góðum starfsanda og árangursríku starfi.
2. Framtíðarsýn
- SSV er áhugaverður og aðlaðandi vinnustaður sem býr vel að starfsfólki sínu og fylgir faglegu vinnulagi í mannauðsmálum.
- Starfsumhverfi SSV byggir á gagnkvæmu trausti, jafnrétti og góðu samstarfi.
- Áhersla er á þverfaglega umræðu og teymisvinnu þar sem starfsfólk miðlar upplýsingum sín á milli og styður hvert annað við úrlausn verkefna.
- Samskipti fólks einkennast af gagnkvæmri virðingu.
- Starfsemi SSV byggir á að fyllsta jafnræðis sé gætt og starfsfólk njóti sín á grundvelli eigin verðleika.
3. Ráðning og ráðningarréttindi starfsmanna
- Laus störf eru almennt auglýst opinberlega, nema í sérstökum tilfellum þegar um er að ræða tímabundin störf til skemmri tíma en eins árs.
- Ráðningarferlið er vandað og fyllsta jafnræðis gætt. Ráðning byggist á hæfileikum, menntun og reynslu þess sem ráðinn er og hæfni viðkomandi til þess að inna starfið vel af hendi.
- Skriflegur ráðningarsamningur er gerður við starfsfólk og starfslýsing fylgir samningi.
- Tekið er vel á móti nýju starfsfólki og þess gætt að viðkomandi fái allar nauðsynlegar upplýsingar um hlutverk sitt, réttindi og ábyrgð.
- Ganga skal frá starfslokum af virðingu, hverjar sem ástæður þeirra kunna að vera.
- Starfsfólk skal láta af störfum þegar það verður 70 ára.
4. Starfsþróun
- SSV leggur áherslu á að starfsfólk eigi kost á fræðslu og þjálfun sem eykur hæfni og ánægju þess í starfi og eflir færni þess í að takast á við ný og síbreytileg verkefni.
- Það er sameiginleg ábyrgð starfsfólks og stjórnenda að viðhalda og bæta fagþekkingu og aðra sérþekkingu sem er nauðsynleg er.
- Jafnræðis skal gætt við úthlutun verkefna, tilfærslur í störfum, tækifæri til símenntunar, möguleika á að axla aukna ábyrgð og framgang í störfum.
- Stjórnendur SSV taka formleg starfsþróunarsamtöl árlega. Jafnframt eru þeir ábyrgir fyrir því að byggja upp og viðhalda góðu starfsumhverfi og efla starfsfólk til árangurs.
5. Starfsumhverfi
- SSV býður starfsfólki sveigjanlegan vinnutíma eins og aðstæður leyfa. Einnig hefur starfsfólk tækifæri til þess að vinna heima að hluta til.
- Vinnustaðurinn er fjölskylduvænn og lögð er áhersla á að jafnvægi ríki á milli vinnu og einkalífs.
- Starfsmenn eru hvattir til að nýta rétt sinn til fæðingarorlofs og reynt er að koma til móts við óskir starfsmanns um tilhögun þess hverju sinni.
- Starfsumhverfi hjá SSV er hvetjandi og stuðlar að ánægju og vellíðan starfsfólks. Áhersla er á forvarnir og heilsueflingu. Aðstaða og búnaður er góður og þess gætt, eins og kostur er, að vinnuálag sé sem jafnast og fari ekki úr hófi fram.
- Starfsfólki býðst árlegur styrkur til heilsuræktar. Gerðar eru reglubundnar kannanir á líðan starfsfólks og starfsánægju og áætlanir um úrbætur unnar út frá þeim.
- Einelti, ofbeldi og áreitni líðst ekki. Starfsfólk skal haga tali sínu og athöfnum þannig að það endurspegli hvorki neikvæð eða lítilsvirðandi viðhorf né vegi að jafnri stöðu og jafnrétti á nokkurn hátt. Um viðbrögð við einelti, ofbeldi og áreitni gildir ákveðið ferli sem er skjalfest og ber stjórnendateymi ábyrgð á að því sé fylgt komi upp mál af þessu tagi.
6. Ábyrgð og skyldur
- Starfsfólk SSV þekkir vel hlutverk samtakanna og vinnur á grundvelli laga SSV, stefnu og markmiða og starfslýsinga.
- Það veitir góða og faglega þjónustu og innir hana af hendi eins vel og samviskusamlega og kostur er.
- Stjórnendur veita reglulega endurgjöf og upplýsingar til starfsfólks um hlutverk, markmið og árangur.
- Starfsfólk gætir trúnaðar um atriði sem það fær vitneskju um í starfi og leynt skulu fara samkvæmt lögum eða eðli máls.
Samþykkt á fundi stjórnar SSV