Lög Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi


1. gr.

Samtökin nefnast: Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi, skammstafað SSV

2. gr.

Markmið samtakanna eru:

 • Að vinna að hagsmunum sveitarfélaganna á Vesturlandi einkum í atvinnu-, efnahags-, mennta-, skipulags-, sam-göngu- og félagsmálum
 • Að efla samstarf sveitarfélaganna og stuðla að víðtækari þekkingu sveitarstjórnarmanna á verkefnum sveitarstjórna og vinna að því að gera verkefni sveitarstjórna eftirsóknar- og áhugaverð.
 • Kynna kosti Vesturlands, efla samkennd íbúa og styrkja þjóðfélagslega aðstöðu landshlutans.

Samtökunum er ætlað að starfa í samvinnu við Samband Íslenskra sveitarfélaga eftir því sem við verður komið

3. gr.

Aðalfundur skal haldinn, eigi síðar en í aprílmánuði ár hvert. Stjórn samtakanna boðar til hans með sannanlegum hætti með minnst þriggja vikna fyrirvara og skal skýrsla stjórnar og ársreikningur fylgja fundarboðinu. Dagskrá skal send eigi síðar en tíu dögum fyrir fund. Aðalfundurinn er lögmætur, ef hann er löglega boðaður. Á kosningaári sveitarstjórna skal halda aukaaðalfund eigi síðar en 1. júlí þar sem kosin skal ný stjórn.

4. gr.

Stjórn SSV getur boðað fulltrúa sveitafélaganna skv. 5. grein saman til fundar þegar stjórn samtakanna telur ástæðu til, svo og þegar fjórðungur kjörinna fulltrúa eða fjórðungur sveitastjórna innan samtakanna óska, enda sé fundarefni tilgreint. Boðað skal til þeirra með tölvupósti með a.m.k. viku fyrirvara.

5. gr.

Sveitarstjórnir kjósa fulltrúa á aðalfund SSV og málþing SSV skv. 10. grein laga þessara, til eins árs í senn og skal kjörtímabil þeirra vera frá 1. júlí til jafnlengdar næsta ár.

 • Sveitarfélag með innan við 300 íbúa skal kjósa einn fulltrúa.
 • Sveitarfélag með 300-700 íbúa tvo fulltrúa.
 • Sveitarfélag með 700-1500 íbúa þrjá fulltrúa.
 • Sveitarfélag með 1500-3000 íbúa fjóra fulltrúa.
 • Sveitarfélag með fleiri en 3000 íbúa fimm fulltrúa.

Jafnmargir varamenn skulu kosnir eftir sömu reglum.
Kjörgengir eru kjörnir sveitarstjórnarmenn og varamenn þeirra, svo og framkvæmdastjórar sveitarfélaga.
Hver sveitarstjórn skal senda stjórn samtakanna tilkynningu um kjör fulltrúa fyrir 1. júlí ár hvert.
Stjórn samtakanna er heimilt að bjóða til aðalfundar aðilum sem tengjast umfjöllun og starfi samtakanna, með málfrelsi og tillögurétt.

6. gr.

Stjórn SSV skal skipuð 12 mönnum. Sveitarfélag með 3.000 íbúa eða fleiri skal eiga tvo stjórnarmenn en sveitarfélag með færri en 3.000 íbúa skal eiga einn stjórnarmann. Að fengnum tilnefningum sveitarfélaganna skal aðalfundur kjósa stjórn til tveggja ára í senn. Kjósa skal sérstakan varamann fyrir hvern aðalmann í stjórn. Formaður er kosinn sérstaklega á aðalfundi. Komi upp sú staða að stjórnarmaður eða varamaður í stjórn missi umboð sitt eða láti af stjórnarsetu á kjörtímabilinu af öðrum ástæðum skal kjósa nýjan fulltrúa í hans stað. Kosning nýrra fulltrúa getur farið fram á aðalfundi eða á haustþingi að fenginni tilnefningu viðkomandi sveitarfélags. Stjórnin kýs varaformann og ritara úr sínum hópi og skiptir að öðru leyti með sér verkum. Falli atkvæði jafnt á stjórnarfundum ræður atkvæði formanns útslitum. Sá sem kjörinn hefur verið aðalmaður í stjórn fjögur kjörtímabil í röð, þ.e. átta ár, er ekki kjörgengur til stjórnar næstu tvö ár. Formaður sem hefur verið kjörinn tvö kjörtímabil í röð, þ.e. fjögur ár, er ekki kjörgengur til formennsku næstu tvö árin.

7. gr.

Stjórn SSV ber að fylgja fjárhagsáætlun, sem samþykkt er á aðalfundi. Komi upp verkefni sem ekki er gert ráð fyrir í fjárhagsáætlun og felur í sér kostnaðarhækkun umfram 5% af áætluðum heildarkostnaði SSV á viðkomandi fjárhagsári skal stjórnin kalla saman fund fulltrúa sveitarfélaganna skv. 3. grein og fá samþykki fyrir nýjum eða auknum útgjöldum eða samningum sem hafa í för með sér fjárhagslega skuldbindingu samtakanna.

8. gr.

Aðalfundur skal ákveða heimilisfang samtakanna. Stjórn sam-takanna ræður framkvæmdastjóra og annað starfsfólk og annast húsnæðismál og starfsaðstöðu samtakanna.
Fulltrúi Vestlendinga í stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga skal jafnan boðaður á alla stjórnarfundi og aðra sambærilega fundi á vegum SSV með tillögurétt og málfrelsi.

9. gr.

Stjórn skal leggja fyrir aðalfund endurskoðaða reikninga samtakanna fyrir síðastliðið reikningsár og fjárhagsáætlun fyrir næsta fjárhagstímabil. Fundurinn skal úrskurða reikningana, afgreiða áætlunina og ákveða árgjald sveitarfélaganna til samtakanna.

Dagskrá aðalfundar skal vera þessi:

 • Skýrsla stjórnar, félaga og rekstrareininga, sem SSV ber ábyrgð á um starfsemi liðins árs.
 • Ársreikningar SSV og þeirra félaga sem SSV ber fjárhagslega ábyrgð á, ásamt skýrslu endurskoðanda.
 • Fjárhagsáætlun fyrir komandi ár og ákvörðun um árgjald.
 • Starfsáætlun fyrir komandi ár.
 • Kosning stjórnar og varastjórnar. (annað hvert ár), nema á kosningaári, sbr. 3. gr.
 • Kosning í þær nefndir sem starfa á milli aðalfunda.
 • Ákvörðun um laun og þóknun til stjórnar og nefnda.
 • Kosning endurskoðanda.
 • Önnur mál löglega fram borin

Árgjald hvers sveitarfélags skal vera tiltekin upphæð á hvern íbúa sveitarfélagsins og auk þess ákveðið fastagjald sem ákveðið er á aðalfundi hverju sinni. Öll sveitarfélög skulu greiða sama fastagjald óháð stærð þeirra.
Gjalddagar skulu vera ársfjórðungslega.

10. gr.

Reikningsár samtakanna skal vera almanaksárið.

11. gr.

Kostnaður við stjórn samtakanna, fundarhöld, ferðalög stjórnar og annar sameiginlegur kostnaður greiðist úr sameiginlegum sjóði samkvæmt ákvörðun aðalfundar. Hver sveitarstjórn greiðir ferðakostnað eigin fulltrúa á aðalfund SSV.

12. gr.

Stjórn SSV skal halda málþing um hagsmunamál sveitarfélaganna á Vesturlandi í septembermánuði ár hvert. Á málþingið hafa kjörgengi fulltrúar sveitarfélaganna samkvæmt 5. grein laga þessara. Stjórn samtakanna er heimilt að bjóða til málþingsins aðilum sem tengjast umfjöllun og starfi sambandsins, með málfrelsi og tillögurétt. Málþingið getur ályktað um þau mál sem borin eru þar upp og ræður afl atkvæða niðurstöðu máls.

13. gr.

Breyta má lögum þessum á aðalfundi. Tillögur til lagabreytinga skulu berast stjórn SSV a.m.k. tveimur vikum fyrir aðalfund. Tillögur til lagabreytinga skulu sendar út með dagskrá. Tillaga til lagabreytinga nær fram að ganga ef 2/3 hluti atkvæðisbærra fundarmanna á löglega boðuðum aðalfundi greiða henni atkvæði.

Þannig samþykkt á stofnfundi 22. des. 1969 með breytingum á aðalfundum 1974, 1985, 1988, 2001, 2004, 2006, 2007 og 2013, 2014, 2017 og 2020.