5 – SSV samgöngunefnd

admin

5 – SSV samgöngunefnd

 

F U N D A R G E R Ð

                                            FUNDUR Í SAMGÖNGUNEFND

 3. október 2001

Fundur  haldinn í Samgöngunefnd SSV miðvikudaginn 3. október 2001 kl. 16.  Mættir voru: Davíð Pétursson formaður, Guðmundur Vésteinsson, Kolfinna Jóhannesdóttir, Sigríður Finsen, Sigurður Rúnar Friðjónsson, Þórður Þórðarson, Magnús Valur Jóhannsson frá Vegagerðinni og Hrefna B Jónsdóttir.  Kristinn Jónasson og varamaður hans Jón Þór Lúðvíksson boðuðu báðir forföll.

Dagskrá:

1.      Undirbúningur fyrir aðalfund SSV.

2.      Önnur mál.

Formaður, Davíð Pétursson, setti fundinn og bauð gest fundarins, Magnús Val, og nefndarmenn velkomna til fundarins.  Hann sagði það árvisst í starfi nefndarinnar að hittast fyrir aðalfund SSV og vinna að undirbúningi fyrir aðalfund.

Undirbúningur fyrir aðalfund SSV.

Farið var yfir stöðu vegamála á Vesturlandi.  Formaður gaf Magnúsi Val Jóhannssyni orðið og fór hann yfir stöðu framkvæmda og áætlana í landshlutanum.  Margar framkvæmdir eru í gangi í fjórðungnum og svo eitthvað sé nefnt þá eru að ljúka framkvæmdum við stór verkefni eins og Vatnaleið og Borgarfjarðarbraut

Samkvæmt fjárlögum, eins og þau eru lögð fram, er um að ræða tveggja milljarða niðurskurð til Vegagerðarinnar en Magnús sagðist ekki vita hvernig þessi niðurskurður kæmi niður á Vesturlandi.

 Nokkur umræða varð um nafngiftir við nýjar leiðir eða við uppbyggingu eldri vega.  Davíð taldi Vegagerðina fara frjálslega með það að nefna leiðir og/eða framkvæmdir.  Leggja ætti áherslu á að halda þeim nöfnum sem leiðirnar heita í dag og byggja á.  Flest þeirra væru gömul og gild og vísuðu til sagna eða umhverfisins með ýmsum hætti og væru orðin skráð í svæðisskipulag sveitarfélaganna.  Væri því ekki alltaf leyfilegt að gefa leiðum ný nöfn.

 Fundarmenn lýstu undrun sinni yfir því að framkvæmdir við veginn í Norðurárdal skuli ekki koma inn á vegaáætlun fyrr en árið 2004. Lýstu sumir undrun sinni á því að þjóðvegur nr. 1 skyldi ekki hafa forgang fyrir uppsveitarvegum.   Eftirfarandi ályktun var samþykkt.

              Samgöngunefnd Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi leggur áherslu á að                      vegaframkvæmdum í Norðurárdal, hringvegur Borgarfjarðarbraut-Grafarkot, verði flýtt eins og unnt er.  

 Hvatt er til þess að sérfjárveiting fáist í þennan vegakafla um Norðurárdal þar sem um er að ræða veg sem er tenging milli kjördæmanna þriggja, sem nú sameinast í eitt, og því ekki sanngjarnt að allt fjármagn til framkvæmdarinnar verði tekið af Vestlendingum einum.

Fundarmenn voru sammála um að ekki yrði lengur unað við ástand þjóðvegarins um Norðurárdal eins og hann væri.  Mikil umferð er um þennan veg enda þjóðvegur nr. 1 og um hann fer mikil umferð norður- og vesturum auk þess sem mikil uppbygging hefur orðið á Bifröst og áætlað að þar muni verða risin 600 manna byggð að tveimur árum liðnum..

 

Sigríður Finsen ræddi um vegaáætlun á Norður- og Austurlandi en í þeim landshlutum er fyrirhuguð gangnagerð sem er kostnaðarsöm og alfarið kostuð af ríkinu og enginn greiðir krónu fyrir að fá að aka í gegnum þau.  Út frá þeirri umræðu velti hún því upp hvort Vestlendingar ættu ekki að fá aukaframlag til vegaframkvæmda út á það að þeir væru sjálfir að borga Hvalfjarðargöngin.

Kolfinna lagði áherslu á hringveg um Borgarnes.  Hún sagði að tvö sjónarmið myndu einkum mætast í þeirri umræðu, annars vegar innanbæjarsjónarmiðin og hins vegar sjónarmið þeirra sem vilja komast beina leið í gegnum bæinn og myndu sætta sig illa við miklar hraðatakmarkanir.  Hún sagði leigusamning lands við Kárastaðaflugvöll vera að renna út og endurnýja þarf þann samning og koma þyrfti málinu í farveg.  Þá lagði hún áherslu á áframhaldandi framkvæmdir við breikkun brúa og nefndi brýr í Stafholtstungum í því sambandi.  Hún taldi Sundabraut mikið hagsmunamál fyrir Vestlendinga, einkum m.t.t. þess að raunhægt sé að geta sótt vinnu og nám til höfuðborgarsvæðisins.

Sigurður Rúnar fagnaði tilkomu vegarins yfir Bröttubrekku.  Hann sagði að ýmsar aðrar framkvæmdir biðu og væri t.d. orðið neyðarástand á einbreiðu slitlagi í Dölum.  Vegur um Svínadal væri orðinn verulega dapur og hið sama væri að segja um veginn um Skógarströnd.

Hann lagði áherslu á að fengnar yrðu umferðatölur fyrir Vesturland því þær gætu orðið okkur til framdráttar í baráttunni um aukið fjármagn til vegaframkvæmda.  Verst væri hvað þær kæmu oft seint og ganga þyrfti á eftir því að fá þær.  Að lokum minntist hann á hraða í umferðinni og lítið eftirlit lögreglu.

Vífill Karlsson kom inn á fundinn með umferðartölur en hann hefur uppfært hagvísa frá fyrra ári miðað við þær upplýsingar sem fyrir liggja.  Vífill tók það að sér að afla nýjustu gagna og senda þau fundarmönnum þegar þau liggja fyrir.

Nokkur umræða varð um vegtengingu til Vestfjarða.  Fundarmenn voru almennt á þeirri skoðun að aðalumferðaræðin til Vestfjarða yrði í framtíðinni um Gilsfjarðarbrú og bundu vonir sínar við að styðsta og hagkvæmasta leiðin verði valin til Ísafjarðar frá Reykhólasveit.

Niðurstaða fundarins var að áfram yrði að berjast fyrir því að fá aukið fjármagn til vegaframkvæmda á Vesturlandi.

 Fundi slitið kl. 18.00

 Fundarritari.

Hrefna B. Jónsdóttir.