10 – Sorpurðun Vesturlands

admin

10 – Sorpurðun Vesturlands

                     F U N D A R G E R Ð
Stjórnarfundur haldinn í Sorpurðun Vesturlands hf. þriðjudaginn 18. september kl. 17.00 á skrifstofu SSV í Borgarnesi.  Mættir voru Guðbrandur Brynjúlfsson, Guðni Hallgrímsson, Pétur Ottesen, Ríkharð Brynjólfsson, og Hrefna B Jónsdóttir. 
 
Dagskrá fundarins er eftirfarandi:
1. Urðun sláturúrgangs.
2. Erindi Gámaþjónustu Vesturlands tekið upp frá síðasta fundi.
3. Endurheimt votlendis.
4. Gjaldskrá fyrir dekk og timbur.
5. Eftirlitsskýrsla – Hollustuvernd.
6. Heimsókn til Sorpu.
7. Önnur mál.
 
Formaður, Pétur Ottesen, bauð fundarmenn velkomna.
 
Urðun sláturúrgangs.
Pétur Ottesen sagði frá erindi sem SV hefur borist frá sláturleyfishafa varðandi lækkun á gjaldskrá fyrir urðun sláturúrgangs í Fíflholtum. 
Guðni lagði áherslu á að kostnaði við urðun sláturúrgangs yrði náð niður með einhverjum hætti.  Farið var yfir útreikninga frá VST varðandi urðunarkostnaðinn við umræddan úrgang og að endingu urðu fundarmenn á eitt sáttir um að bjóða 7 kr. pr. kg. + vsk.
Nokkrar umræður urðu um möguleika á íblöndun sláturúrgangs til að flýta fyrir niðurbroti. 
 
Erindi Gámaþjónustu Vesturlands.
Beiðni hefur borist frá Gámþjónustu Vesturlands hf. um að fá tekið upp aftur erindi sem lagt var fyrir síðasta stjórnarfund SV þar sem óskað var eftir heimild til að umhlaða brotajárni innan urðunarstaðarins í Fíflholtum.  Samþykkt var að veita Gámaþjónustunni leyfi til að geyma brotajárnsgáma í Fíflholtum gegn því skilyrði að járnið fari ekki úr gámunum á jörðinni.  Stjórn áskilur sér einnig rétt til þess að afturkalla leyfið fyrirvaralaust ef umgengni verður ábótavatn.
 
Endurheimt votlendis.
Pétur Ottesen sagði frá stöðu mála í framkvæmdinni á Saurum þar sem SV hefur látið vinna að endurheimt votlendis.  Þessari vinnu er lokið og lagði formaður til að Jón Ágúst hjá VST yrði fenginn til að gera úttekt á framkvæmdinni og senda Náttúruvernd ríkisins lýsingu á framkvæmdum til staðfestingar þessarar vinnu.
Útbúa þarf samning við Hannes Blöndal, jarðeiganda á Saurum og þinglýsa honum.
Gjaldskrá fyrir dekk og timbur.
Rætt um gjaldskrármál fyrir móttöku á dekkjum og timbri. 
 
Eftirlitsskýrsla – Hollustuvernd.
Borist hefur bréf frá Hollustuvernd ríkisins en þann 6. júní sl. komu til Fíflholta aðilar frá þeim til að sinna reglubundnu eftirliti þar.  Samkvæmt starfsleyfi skal SV leggja fram áætlun um minnkun úrgangs til förgunar og er þess farið á leit við SV að sú áætlun skuli unnin fyrir 1. október n.k.  Fundarmenn voru sammála um að það væri í raun ekki urðunarstaðarins að vinna að gerð áætlana sem þessara.  Það væri í raun sveitarfélaganna.  Formanni og framkvæmdastjóra var falið að ræða þetta mál við Cees hjá Hollustuvernd.
 
Heimsókn til Sorpu.
Ráðgert er að fara í heimsókn til Sorpu fimmtudaginn 27. september n.k.  Sorpufólk hefur lýst sig reiðubúið að taka á móti stjórn Sorpurðunar þann dag.
 
Önnur mál.
Fimmtudaginn 13. september sl. fóru Hrefna og Pétur vestur í Fíflholt ásamt Þorsteini Eyþórssyni.  Farið var yfir stöðu mála þar.  Framkvæmdum við hreinsunarvirkið er lokið og verður í framhaldinu gerður sýnatökubrunnur fyrir framan síubeðið.  Þetta er gert svo hægt verði að fylgjast með virkni þess í samræmi við starfsleyfi. 
Málning skemmu í Fíflholtum.
Málningarvinnu í Fíflholtum er lokið.
 
Minnkun förgunar lífræns úrgangs.
Guðbrandur velti upp þeirri spurningu hvert væri hlutverk Sorpurðunar Vesturlands í því að vekja athygli sveitarfélaganna á þeim reglum og áætlunum sem í gangi eru varðandi förgun lífræns úrgangs.
Fundi slitið.
Fundarritari.
Hrefna B. Jónsdóttir.