11 – SSV stjórn

admin

11 – SSV stjórn

               F U N D A R G E R Ð
          Stjórnarfundur SSV, föstudaginn 14. september 2001.
Stjórnarfundur SSV haldinn á skrifstofu SSV, föstudaginn 14. september 2001 kl. 15.  Mættir voru: Gísli Gíslason, Guðrún Jónsdóttir, Gunnar Sigurðsson, Jónas Guðmundsson, Sigríður Finsen, Sigurður Valgeirsson, Ólafur Sveinsson og Hrefna B. Jónsdóttir.  Dagný Þórisdóttir var í orlofi og mætti Sigríður í hennar stað.
 
Dagskrá fundarins:
1. Samstarfsvettvangur Vesturlands.
2. Menningarmálaverkefnið.
3. Svarbréf Vegagerðarinnar við uppsetningu skilta.
4. Málefni atvinnuráðgjafar.
5. Tímasetning aðalfundar
6. Skipun fulltrúa í svæðisráð.
7. Erindi frá Vesturlandsskógum.
8. Fréttir af starfi Sambands íslenskra sveitarfélaga
9. Fréttir af aðalfundum FV og SSNV
Framlagðar fundargerðir.
10. Framlögð afrit af bréfum frá landshlutasamtökum.
11.  Önnur mál.
Formaður setti fund og bauð fundarmenn velkoma.
 
Samstarfsvettvangur Vesturlands.
Formaður, Gunnar Sigurðsson, fór yfir stöðu SV.  Hann sagði alla þá sem sent hafa inn svör ánægða með þessa nýjung.  Þó hafi margir viljað hafa ákveðna fyrirvara og t.d. ráðuneytin ekki séð ástæðu til að tilnefna fulltrúa heldur sögðust tilbúin að koma að með fulltrúa ef málefni yrðu til umfjöllunar sem varða stjórnsýsluverkefni þeirra.  Hann lagði fram eftirfarandi bókun:
Væntingar voru um afdráttalausari stuðning frá þeim hagsmunaaðilum sem leitað var til, en þrátt fyrir þessa niðurstöðu, leggur stjórn SSV til við sveitarfélög á Vesturlandi, að haldið verði áfram að vinna að því að koma á laggirnar Samstarfsvettvangi Vesturlands, þó áherslur og fyrirkomulag verði með örlítið öðru formi en upphaflega var áformað.
Gísli Gíslason tók undir orð formanns, senda yrði þessar hugmyndir til sveitarfélaganna.  Einnig lagði hann áherslu á að SSV og Atvinnuráðgjöfin yrðu meira aðskilin, rekstrarlega og fjárhagslega.  Samþykkt var að Gísli, Kristinn og Ólafur færu yfir kosti og galla þess að aðgreina rekstur SSV og AT.
Fundarmenn samþykktu að senda bókunina, ásamt greinargerð, til allra sveitarfélaganna á Vesturlandi og gefa þeim tvær vikur til að senda inn sínar athugasemdir. 
 
Menningarmálaverkefnið.
Hrefna vísaði til bréfs frá menntamálaráðherra dags. 29. júní 2001 þar sem ekki er talið raunhæft að ljúka gerð menningarsamnings haustið 2001 vegna fjárlaga 2002 og SSV er hvatt til viðræðna við Vestfirðinga um stefnumótunarvinnu í menningarmálum.  Gunnar Sigurðsson lagði eftirfarandi tillögu fyrir fundinn.
Stjórnarfundur SSV, haldinn á skrifstofu SSV föstudaginn 14. september 2001, samþykkir að ritað verði bréf til menntamálaráðherra þar sem ráðuneytið er beðið um að endurskoða afstöðu sína til þess að Vestlendingar og Vestfirðingar vinni sameiginlega að stefnumótun í menningarmálum á þessu stigi málsins
.
Guðrún Jónsdóttir reifaði það hvort það væri ekki ákveðin þröngsýni að neita þessum hugmyndum menntamálaráðherra.
Kristinn taldi það ekki gott menningarlega séð að blanda stefnumótunarvinnu þessara landshluta saman.  Menningarstarf á Vesturlandi og Vestfjörðum væri afar ólíkt og m.t.t. þess taldi hann betra að hvor landshluti um sig mótaði sína stefnu í menningarmálum.
Tillagan var samþykkt.  Guðrún Jónsdóttir sat hjá.
 
Svarbréf Vegagerðarinnar við uppsetningu skilta.
Borist hefur svar frá Vegagerðinni við bréfi sem sent var 26.06.2000 og var beiðni frá SSV að upp yrðu sett skilti þar sem ferðamenn væru boðnir velkomnir til Vesturlands.  Vegagerðin er ekki tilbúin að kosta þessi skilti en er reiðubúin til viðræðna og samráðs um útfærslu verkefnisins í samráði við SSV.  Fundarmenn samþykktu að halda áfram með þetta verkefni og var Hrefnu falið að vinna að því.
 
Málefni atvinnuráðgjafar.
Nýsköpunarverkefni á Snæfellsnesi,
samningur við Eyrarsveit.  Drög að samningi liggja fyrir um að verkefnið verði til 8 mánaða og heildarframlag til þess verði 2 millj. kr.  Verkefni þetta var samþykkt.
 
Starfsmannamál.
Ólafur tilkynnti að Inga Huld Sigurðardóttir ferðamálafulltrúi hefði sagt upp störfum hjá ATSSV en hún er á förum til Skotlands í nám.  Í stað hennar kemur. til starfa Ásthildur Sturludóttir sem áður hefur starfað hjá ATSSV.  Stjórn þakkar Ingu Huld vel unnin störf og óskar henni velfarnaðar á nýjum vettvangi.
 
Erindi frá Dalabyggð.
Borist hefur erindi frá Dalabyggð þar sem farið er fram á áframhaldandi aðkomu ATSSV að þróunarverkefni í Dölum.  Stjórn SSV sá sér ekki fært að verða við þessu erindi.  Jónas Guðmundsson sat hjá við afgreiðslu erindisins.
 
Tímasetning aðalfundar.
Tillaga var flutt um að dagsetja aðalfund 27. október eða 2. nóvember.  Formanni, ásamt starfsfólki, var falið að finna út hvor dagurinn er hentugri.  Ákveðið var að halda fundinn á Akranesi.
 
Skipun fulltrúa í svæðisráð.
Borist hefur erindi frá félagsmálaráðuneyti þar sem SSV er beðið um að tilnefna fulltrúa í Svæðisráð um málefni fatlaðra á Vesturlandi þar sem Guðbjartur Hannesson mun ekki geta tekið þátt í störfum ráðsins fram til september 2002.  Tillaga kom upp um Svein Kristinsson Akranesi og var hún samþykkt.
 
Erindi frá Vesturlandsskógum.
Lagt fram bréf frá Vesturlandsskógum um vinnulag varðandi skógrækt við gerð aðalskipulags sveitarfélaga. 
 
Fréttir af starfi Sambands íslenskra sveitarfélaga
Hrefna sagði frá samráðshóp SÍS og landshlutasamtakanna sem hefur það hlutverk að fjalla um markvissara samstarf sambandsins og landshlutasamtakanna.  Í hópnum eru Smári Geirsson og Elín Líndal af hálfu landshlutasamtakanna og Sigríður Ólafsdóttir og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson af hálfu sambandsins.
Lagðar voru fram til kynningar tillögur byggðanefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga.  Stjórn SSV tekur undir tillögur byggðanefndar SÍS og jafnframt fyrirvara Bjarnar Ágústsdóttur.
Landshlutasamtökin hafa í gegnum tíðina skipt með sér því hlutverki að vera í forsvari fyrir landshlutasamtökin einn ár í senn.  Tilkynnt var að Vestlendingar eru í forsvari þetta árið.
Fréttir af aðalfundum FV og SSNV
Guðrún Jónsdóttir og Hrefna sögðu frá heimsóknum sínum á aðalfundi landshlutasamtakanna í hinu nýja Norðvestur kjördæmi. 
 
Framlagðar fundargerðir.
Sorpurðun Vesturlands hf. dags. 5.07.2001.
Símenntunarmiðstöðin dags. 20.08.2001.
Framlögð afrit af bréfum frá landshlutasamtökum.
Bréf frá SSA sent til landverndar.
Bréf frá SSS til SÍS.
 
Önnur mál.
Stjórn Símenntunarmiðstöðvarinnar.
Formaður lagði fram þá tillögu að breytt yrði um stjórnarmenn í stjórn Símenntunarmiðstöðvarinnar.  Hrefna B Jónsdóttir yrði varamaður í stjórn í stað Bjargar Ágústsdóttur sem hefur óskað eftir því að vera ekki lengur vegna leyfis og Pétur Ottesen yrði aðalmaður í stjórn í stað Hrefnu.  Þetta var samþykkt.
 
Málefni Fjöliðjunnar á Akranesi.
Gunnar Sigurðsson ræddi málefni Fjöliðjunnar á Akranesi en þar er fjárhagsstaðan mjög slæm.  Gunnar reifaði það við fundarmenn hvort SSV gæti notað sinn styrk til að beita þrýstingi til að afla fjármagns til Fjöliðjunnar. 
Stjórn SSV lýsir áhyggjum sínum yfir fjárhagsvanda Fjöliðjunnar á Akranesi og skorar á félagsmálaráðherra og fjárlaganefnd að taka málið til úrlausnar.
Fundi slitið.
Fundarritari.  Hrefna B Jónsdóttir.