42 – SSV stjórn

admin

42 – SSV stjórn

 

F U N D A R G E R Ð

 Stjórnarfundur haldinn í stjórn SSV mánudaginn 
29. ágúst 2005 kl. 16 í ráðhúsi Stykkishólmsbæjar í Stykkishólmi.
 

    

Stjórnarfundur haldinn í stjórn SSV, mánudaginn 29. ágúst 2005 kl. 16 á bæjarskrifstofunni í Stykkishólmi.

 

Mætt voru:  Helga Halldórsdóttir, Sveinbjörn Eyjólfsson, Þorsteinn Jónsson, Ólína B. Kristinsdóttir, Sigríður Finsen, Jón Gunnlaugsson og Kristján Sveinsson.  Auk þess sátu fundinn Hrefna B. Jónsdóttir og Ólafur Sveinsson.

 

Við komu til Stykkishólmsbæjar var fyrirtækið Skipavík heimsótt og tók Davíð Sveinsson, bæjarfulltrúi í Stykkishólmi og starfsmaður Skipavíkur, á móti hópnum ásamt Erlu Friðriksdóttur bæjarstjóra og eigendum Skipavíkur, þeim Sigurjóni Jónssyni og Sævari Harðarsyni.

 

Að lokinni heimsókn var gengið til dagskrár.

 

1. Menningarsamningur
2. Vaxtarsamningur
3. Starfsmannamál.
4. Erindi Viðskiptaháksólans og fundargerð fundar.
5. Dagsetning aðalfundar.
6. Framlagðar fundargerðir.
7. Önnur mál.

 

Formaður bauð fundarmenn velkomna.

 

Menningarsamningur.
Rætt um stöðu menningarsamnings.  Stjórn SSV mun leggja áherslu á að hægt verði að undirrita menningarsamning á aðalfundi þann 28. október n.k.

 

Vaxtarsamningur
Þann 14. júní sl. var send beiðni til Iðnaðar- og viðskiptaráðherra, Valgerðar Sverrisdóttur þar sem farið var fram á fund varðandi vaxtarsamning.  Formlegt svar hefur ekki borist við erindinu en í tölvupósti frá starfsmanni ráðuneytisins er færst undan því að funda með fulltrúum SSV.  Stjórnin mun árétta ósk um fund enda vart á forræði starfsmanna að hafna fundi sem ráðherra hefur samþykkt.  Stjórnin telur mjög nauðsynlegt að áherslur hennar verði kynntar í ráðuneytinu áður en undirbúningsvinnu að byggðaáætlun lýkur. 

Sveitarfélög á Vesturlandi hafa fengið send gögn sem grundvallast á þeirri stefnumótunarvinnu sem unnin hefur verið fyrir Vesturland.  Óskað var eftir umsögnum og hafa tvö sveitarfélög sent inn umsagnir vegna vaxtarsamnings.
Helga Halldórsdóttir lagði til að Páll Brynjarsson taki sitt sæti í vaxtarsamningshópnum og var það samþykkt.  Sveinbjörn Eyjólfsson mun leiða hópinn f.h. SSV.

 

Starfsmannamál.
Auglýst var eftir starfsmönnum til starfa hjá SSV og rann umsóknarfrestur út 5. ágúst sl.  Atvinnuviðtöl hafa verið tekin og lögðu Hrefna og Ólafur fram tillögur að ráðningu.  Stjórn samþykkti framkomnar tillögur.  Hrefnu og Ólafi falið að ganga til samninga við tilnefnda aðila.
Vífill Karlsson mun fara í starfsleyfi 1. október n.k. og koma aftur til starfa 1. ágúst 2006.  Ólafur Sveinsson lagði fram tillögur um að ráða starfsmann til starfa sem myndi hafa sérþekkingu og geta sinnt störfum Vífils meðan á leyfi hans stendur. 

Helgu Karlsdóttur voru fluttar bestu þakkir stjórnar fyrir vel unnin störf og óskað velfarnaðar á nýjum vettvangi.

 

Erindi Viðskiptaháksólans og fundargerð fundar.
Lögð fram fundargerð frá fundi sem fulltrúar Viðskiptaháskólans á Bifröst og fulltrúar frá SSV sátu og ræddu erindi Viðskiptaháskólans varðandi möguleika á því að Rannsóknarmiðstöð Viðskiptaháskólans á Bifröst taki að sér rannsóknar- og ráðgjafarstarfsemi SSV.
Niðurstaða þess fundar var sú að finna fleti á samstarfi og markvisst að byggja upp samstarf milli SSV og RVB og möguleika þess að RVB fái aðgang að gagnagrunni SSV en miklar upplýsingar eru til innan SSV um Vesturland.
Næsti viðræðurfundur fulltrúa SSV og RVB áætlaður 28. sept.n.k.  Fulltrúum SSV falið að vinna áfram að þróun samstarfs.  Lagt til að þetta mál fái umræðu á aðalfundi SSV.

 

Dagsetning aðalfundar.
Lagt til að aðalfundur SSV verði haldinn á Hvalfjarðarströnd föstudaginn 28. október n.k.  Starfsmönnum stjórnar ásamt formanni, falið að hefja vinnu að efnistökum.

 

Framlagðar fundargerðir.
Sorpurðun Vesturlands, stjórnarfundur 22. júní 2005.
Samtök sunnlenskra sveitarfélaga, stjórnarfundur 13. júní 2005.

 

Önnur mál.
Svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs.
Lagt fram erindi til sveitarfélaganna varðandi svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs.  Sveitarfélögin hafa frest til 1. september til að samþykkja áætlunina.

 

Álit á framkvæmd byggðaáætlunar fyrir árin 2002 – 2005.
Lagt fram svarbréf til Byggðastofnunar um álit á framkvæmd byggðaáætlunar fyrir
árin 2002 – 2005 þar sem fram kemur að Vesturland var ekki umfjöllunarefni áætlunarinnar en þess vænst að Vesturland skipi sýnilegan sess í þeirri áætlun sem nú er í vinnslu.

 

Ársþing landshlutasamtaka.
Lagðar fram dagskrár ársþinga landshlutasamtaka á Vestfjörðum og Norðurlandi Vestra.

 

Aðalfundir.
Rætt um hvort hægt er að hafa aðalfundi stofnana og fyrirtækja sem tengjast sveitarfélögunum á sama tíma og aðalfund SSV.

 

Bílamál
Ólafur og Hrefna lögðu fram beiðni um heimild til að skoða með kaup og/eða leigu á  bíl fyrir SSV. 

 

Ráðstefna um landbúnaðarmál.
Formaður sagði frá fundi með framkvæmdastjóra Búnaðarsamtaka Vesturlands þar sem rætt var um hugsanlega ráðstefnu um landbúnað, þar sem sérstaklega yrði fjallað um framtíð og nýsköpun.  Formanni og Ólafi falið að vinna áfram að málinu og kanna með fleiri samstarsaðila.

 

Samgöngunefnd SSV.
Sagt frá ferð Samgöngunefndar SSV með þingmönnum NV-kjördæmisins 23. ágúst sl.

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 18:45.

 

Að fundi loknum sat stjórn kvöldverðarboð Stykkishólmsbæjar í Narfeyrarstofu og er Stykkishólmsbæ þakkað fyrir góðar móttökur.

 

Hrefna B. Jónsdóttir, fundarritari.