40 – SSV stjórn

admin

40 – SSV stjórn

F U N D A R G E R Ð

Stjórnarfundur í stjórn Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi
haldinn að Bifröst í Borgarfirði 13. apríl 2005 kl. 15.

 

Stjórnarfundur í stjórn SSV haldinn að Bifröst í Borgarfirði miðvikudaginn 13. apríl 2005 og hófst fundurinn kl. 15.
Mætt voru: Helga Halldórsdóttir, Sveinbjörn Eyjólfsson, Ólína Kristinsdóttir, Sigríður Finsen, Þorsteinn Jónsson, Kristján Sveinsson og Jón Gunnlaugsson.  Einnig sátu fundinn Ólafur Sveinsson og Hrefna B. Jónsdóttir.

 

Dagskrá fundarins:
1. Byggðaáætlun
2. Menningarsamningur
3. Ályktanir UKV
4. Málefni atvinnuráðgjafar.
5. Umsagnir þingmála
6. Framlagt efni.
7. Framlagðar fundargerðir.
8. Samgöngumál.
9. Önnur mál.

 

Formaður setti fund og bauð fundarmenn velkomna.

 

1.  Byggðaáætlun
Stjórn SSV og framkvæmdastjórar sveitarfélaganna komu saman í mars og fóru yfir áherslur Vestlendinga varðandi byggðaáætlun.  SSV – þróun og ráðgjöf, vann í framhaldi fundarins markmið fyrir nýja byggðaáætlun sem send voru Iðnaðarráðuneytinu.  Stjórnarmenn lýstu ánægju sinni með það sem unnið var og sent frá  Vesturlandi.  Fundarmenn töldu það næsta skref að vera vakandi yfir því er drög að byggðaáætlun yrði gefin út til að geta fylgt markmiðum landshlutans eftir.

 

2.  Menningarsamningur
Sent hefur verið bréf til menntamálaráðherra og spurt hvort Vesturland megi eiga von um menningarsamning.  Lagður fram menningarsamningur milli Austurlands og Menntamálaráðuneytisins.  Hrefnu falið að skoða Austfjarðasamninginn m.t.t. fyrri vinnu við hugsanlegan menningarsamning.

 

3.  Ályktanir UKV
Lagðar fram ályktanir frá aðalfundi UKV sem haldinn var í Dalabúð 10. mars 2005.
Umræður urðu um markaðsmál landshlutans og starfsemi UKV fyrir Vesturland. 

Hrefnu og Ólafi falið að setja upp áætlun yfir verkefni sem UKV gæti hugsanlega unnið fyrir SSV og kostnaðarmeta þau.  Fundarmenn sammála um að SSV vinni áfram að ferðaþjónustunni á svipuðum nótum og verið hefur.

 

4 Málefni atvinnuráðgjafar.
Starfsmannamál

Formaður fór yfir stöðu starfsmannamála.  Samþykkt að auglýsa eftir starfsmanni á Snæfellsnesi á næstunni.  Hrefnu og Ólafi falið að útfæra auglýsingu.

 

Vaxtarsamningur.
Ólafur lagði fram vinnueintak af undirbúningsvinnu að vaxtarsamningi Vesturlands. Farið er að sjá fyrir endann á skýrsluvinnunni og velti Ólafur því upp hver næstu skref yrðu varðandi þá vinnu. Skýrslan verður send sveitarstjórnum til umsagnar og sveitarstjórnum boðin heimsókn Atvinnuráðgjafar til að ræða skýrsluna.

Nokkur umræða varð um þá þekkingu og hæfni sem hefur orðið til á landsbyggðinni til að vinna að rannsóknum og skýrslugerðum.

 

Stofnun fasteignafélags.
Ólafur dreifði greinargerð um stofnun fasteignafélags.  Umræða verður tekin upp á næsta stjórnarfundi varðandi raunhæfi hugmyndarinnar og hvort ástæða þykir til að kynna verkefnið fyrir sveitarfélögum á Vesturlandi.

 

Atvinnuþátttaka kvenna
Ólafur sagði frá verkefnastöðu varðandi úttekt á atvinnuþátttöku kvenna í þremur sveitarfélögum á Vesturlandi; Akranesi, Borgarbyggð og Borgarfjarðarsveit. 

 

Frumkvöðladagur.
Líkur eru á að hann frestist til haustsins.  Frumkvöðlanámskeið hugsanlega haldið í Dalasýslu á næstunni og áform eru um að þau verði haldin víðar á Vesturlandi, verið sé að leita eftir fjármögnun til þess.

 

5.  Umsagnir þingmála
a. Tillaga til þingsályktunar um eflingu fjárhags Byggðastofnunar.
b. Skýrsla um umfang skattsvika á Íslandi.
c. Frumvarp til laga um skattskyldu orkufyrirtækja.
d. Frumvarp til laga um fjárhagslegan aðskilnað milli reksturs útgerðar og fiskvinnslu í landinu.
e. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.
f. Tillaga til þingsályktunar um verndaráætlun fyrir svæði sem eru ósýkt af sauðfjárriðu.
g. Tillaga til þingsályktunar um staðbundna fjölmiðla.
h. Frumvarp til laga um uppboðsmarkaði sjávarafla.
i. Tillaga til þingsályktunar um ferðamál.

 

6. Framlagt efni.
Grænt bókhald Sorpurðunar Vesturlands hf. v. 2004.

 

7. Framlagðar fundargerðir.
Samgöngunefnd SSV 25.02.2005
Skólanefnd Fjölbrautaskóla Vesturlands 22.03.2005.
Sorpurðun Vesturlands. Aðalfundur 25.02.2005
Sorpurðun Vesturlands.  Stjórnarfundur 25.02.2005
Samgöngunefnd SSV. Þingmannafundur 31.03.05.

 

8. Samgöngumál.
Lækkun Hvalfjarðargangagjalds.
Stjórn SSV fagnar lækkun gjalds í Hvalfjarðargöng og teljur að hér sé um mikilvægt hagsmunamál að ræða fyrir íbúa svæðisins.  Stjórn SSV telur jákvæð áhrif Hvalfjarðarganga ótvíræð eins og nýleg skýrsla um áhrif Hvalfjarðarganga sýnir.  Bent skal þó á að nauðsynlegt er, ferðaþjónustunnar vegna, að gjald fyrir stakar ferðir lækki einnig.

 

Málþing um framtíð ferjusiglinga yfir Breiðafjörð.
Ólafur sagði frá þátttöku SSV í málþingi um framtíð ferjusiglinga yfir Breiðafjörð.
Lögð var fram fundargerð af fundinum og afrit af bréfi til samgönguráðherra þar sem niðurstaða fundarins er sett fram.  Í því bréfi er sagt frá skýrum skilaboðum fundarins varðandi mikilvægi tengingar sem ferjusiglingin skapar. 

 

Samgönguáætlun.
Formaður tók upp umræðu um samgönguáætlun sem fram fer á Alþingi þessa dagana en vegna ummæla sem fallið hafa á Alþingi undanfarna daga um vegi í dreifbýli landsins samþykkti stjórn SSV svohljóðandi bókun:

Stjórn SSV undrast þann málflutning sem frá einstaka þingmönnum hefur komið við umræður um samgönguáætlun á Alþingi.  Þar hefr m.a. komið fram sú skoðun og þær yfirlýsingar að vegir víða á landsbyggðinni, t.a.m. í Borgarfirði séu ,,teppalagðir”.  Hér eru um að ræða yfirlýsingar sem eru algerlega úr samhengi við þann  raunveruleika sem blasir við íbúum víða á Vesturlandi. 

Mikið hefur áunnist í samgöngubótum á Vesturlandi en þó er ástand stofnvega,  safnvega og tengivega víða óviðunandi og vegir nánast ófærir á vissum árstímum. 

Stjórn SSV tekjur undir það sjónarmið að góðar samgöngur á höfuðborgarsvæðinu eru afar mikilvægar en það sama má segja um vegakerfi landsins almennt.  Stjórn SSV skorar á þingmenn að kynna sér af eigin raun ástand vega í dreifbýli landsins áður en komið er með fullyrðingar sem eru ekki í neinu samhengi við þær aðstæður sem íbúar í dreifbýli búa við.


10. Önnur mál.
Landbúnaðarstofnun á Hvanneyri.
Sveinbjörn Eyjólfsson tók upp umræðu um Landbúnaðarstofnun.  Eftirfarandi bókun var samþykkt.


,,Stjórn SSV fagnar frumvarpi landbúnaðarráðherra um Landbúnaðarstofnun, þar sem stefnt er að faglegri stjónrsýslustofnun í landbúnaði.  Stjórnin minnir á að á Hvanneyri í Borgarfirði slær hjarta íslensks landbúnaðar og telur augljóst að hin nýja landbúnaðarstofnun verði staðsett þar í sambýli við Landbúnaðarháskóla Íslands og margar aðrar fagstofnanir landbúnaðarins. 

Það yrði því mikill akkur fyrir Landbúnaðarháskóla Íslands og það háskólasamfélag sem starfrækt er á Hvanneyri að fá stofnun sem þessa á staðinn. Með því myndi landbúnaðarráðherra styðja enn frekar við hið góða starf sem nú fer fram á Hvanneyri“

 

Útibú fiskistofu á landsbyggðinni.
Nokkrar umræður urðu um útibú fiskistofu á landsbyggðinni.

Eftirfarandi bókun var samþykkt:

„Stjórn SSV fagnar þeirri ákvörðun sjávarútvegsráðherra að efla störf fiskistofu á landsbyggðinni. 

Hér er um mikilvægt skref að ræða í því að treysta undirstöður byggðar í landinu og jafna skilyrði til atvinnu, og flytja eftirlit í sjávarútvegi til byggða þar sem sjávarútvegur er stundaður“.

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 16:30.

 

Að stjórnarfundi loknum tóku á móti stjórnarmönnum, Runólfur Ágústsson rektor, Grétar Eyþórsson, nýráðinn forstöðumaður rannsóknardeildar háskólans og Bryndís Hlöðversdóttir sem tekur við starfi deildarstjóra lögfræðideildar skólans í haust.  Fór hópurinn í skoðunarferð um svæðið og fundaði síðan með rektor og starfsmönnum.
    
Fundarritari. Hrefna B Jónsdóttir