13 – SSV samgöngunefnd

admin

13 – SSV samgöngunefnd

F U N D A R G E R Ð
Samgöngunefnd SSV og alþingismenn NV kjördæmis.
fimmtudaginn 31. mars 2005.

 

Fundur haldinn í Nefndasviði Alþingis með alþingismönnum NV kjördæmis, 30. mars 2005 kl. 12.

Mætt voru:  Sturla Böðvarsson samgönguráðherra, Jóhann Ársælsson,  Jón Bjarnason, Guðjón Guðmundsson, Anna Kristín Gunnarsdóttir, Magnús Stefánsson, Kristinn H Gunnarsson, Einar Oddur Kristjánsson og Sigurjón Þórðarson frá Alþingi. 
Frá SSV:  Þórður Þórðarson, Sigurður Rúnar Friðjónsson, Guðmundur Vésteinsson, Davíð Pétursson, Kristinn Jónasson, Kolfinna Jóhannesdóttir.   Magnús Valur Jóhannsson frá Vegagerðinni, og Hrefna B. Jónsdóttir, SSV,  sem jafnframt ritaði fundargerð.

Samgönguráðherra, Sturla Böðvarsson, setti fundinn og gaf formanni samgöngunefndar orðið. 

 

Davíð þakkaði alþingismönnum góða mætingu og hóf yfirferð varðandi áherslur í samgöngumálum.  Hann sagði niðurskurð koma illa við landshlutann og bað um að ekki kæmi til niðurskurðar á Vesturlandi þar sem landshlutinn hefði ekki fengið aukafjárveitingar til vegamála eins og margir aðrir landshlutar.   Hann fór yfir ýmis atriði eins og lækkun gangnagjalds og vísaði til ályktana frá aðalfundi SSV frá því í október 2004.

 

Kristinn Jónasson sagði mörg verkefni brýn í vegaframkvæmdum á Vesturlandi.  Leggja þyrfti áherslur á að klára meginleiðir áður en farið er í styttingar.  Hraða þyrfti framkvæmdum við Norðurárdalsleið.

 

Kolfinna þakkaði fyrir fundinn.  Hún vísaði til stærðar svæðisins og þéttrar búsetu í dreifbýli.  Búsetan kallaði á góðar samgöngur en fjöldi fólks sækir nú vinnu og ekur tengivegi sem eru af misjöfnum gæðum.  Búsetuna mætti styrkja enn frekar með góðum samgöngum og einnig að nýta betur þau tækifæri sem í boði eru.  

 

Samgönguráðherra fór yfir þann samdrátt sem framundan er í vegamálum.  Um er að ræða ákvörun ríkisstórnarinnar og hægja þarf á framkvæmdum.  Stokka þarf því upp vegaáætlun.  Unnið er að endurgerð áætlunarinnar en það mál er á trúnaðarstigi.
Um er að ræða um 6 milljarða niðurskurður á 3 árum, þ.e.  2005 – 2006 – 2007.
Varðandi Sundabrautina þá er um margra missera verk að ræða.  Sundabrautin er stór framkvæmd og er vinna við að meta veglínu nú þegar í gangi.  Sturla sagði að gjald í Hvalfjarðargöng væru nú í augsýn.  Stjórn Spalar hefði boðað til blaðamannafundar næsta dag þar sem tilkynnt yrði um lækkun á gjaldinu.  Samningar hafa tekist um endurfjármögnun lánanna og vonaðist Sturla til að um hagsbót yrði að ræða fyrir þá sem nota göngin.

 

Jóhann Ársælsson sagði erfitt að ræða mál sem væru á trúnaðarstigi eins og vegaáætlun.  Eðlilega væri um erfiða vinnu að ræða.  Hann sagði stjórnvöld ekki hafa staðið sig í því að koma til móts við Spöl varðandi lækkun gjaldsins í Hvalfjarðargöng.  Hann sagði að gaman hefði verið að hafa vegaáætlunina og ræða hana á fundinum.  Hann ræddi vegaframkvæmdir um Grunnafjörð og hvatti menn til að leggja sitt af mörkum til að vinna að þeirri hugmynd.

 

Jón Bjarnason sagði vinnu við vegaáæltlun of mikið í höndum meirihluta flokkanna.  Hann lýsti óánægju sinni yfir niðurskurði í vegamálum þar sem um væri að ræða undirstöðu í samgöngum og atvinnulífi.  Hann tók undir orð nefndamanna varðandi safn- og tengivegi.  Þeir vegir hefðu orðið eftir.  Um væri að ræða tiltölulega lágar upphæðir m.t.t. framkvæmda.  Hann afhenti fundarmönnum tillögu til þingsályktunar sem hann hefur, ásamt fleirum, lagt fram varðandi átak í uppbyggingu héraðsvega.

 

Guðjón Guðmundsson, tók undir það varðandi samgöngunefnd SSV, að um væri að ræða nefnd sem hefði komið fram með góðar tillögur í gegnum árin og væri með merkilegri nefndum. 
Hann sagði vandamál uppi varðandi leiðina milli Reykjavíkur upp á Kjalanes.  Um væri að ræða umferðarhnúta á ákveðnum tímum sólahringsins.  Hann lýsti ánægju sinni varðandi ályktun SSV varðandi Grunnafjörðinn.  Taldi tímabært að fara að skoða þá vegalagningu af alvöru.  Lýsti ánægju sinni með lækkun Hvalfjarðargangagjalds en sagði þó þann galla fylgja að tímalengd gjaldtöku lengdist á móti.

 

Einar Oddur sagði alvarlegt mál hve þenslan kæmi niður á ríkinu.  Pólitísk átök væru um skiptingu fjárins, víða væri þörf á fjármagni í þjóðfélaginu og harkalega deilt.  Hann sagði samgönguráðherra liggja undir miklu og ósanngjörnu ámæli víðsvegar að varðandi skiptingu fjármagns til vegaframkvæmda. 

 

Sigurjón Þórðarson sagði að um væri að ræða forgangsröðun.  Hann sagði opinberan vöxt aðallega hafa orðið á höfuðborgarsvæðinu og þegar farið er í niðurskurð bitnaði það á þeim svæðum sem síst skildi.  Taldi fásinnu að skera niður vegafé.  Vísaði til sameiningu sveitarfélaga sem kallar á bættar samgöngur.

 

Kristinn H. Gunnarsson sagði fjármagn til vegaframkvæmda hefðu hækkað verulega í gegnum árin.  Mikið væri þó óunnið í vegaframkvæmdum.  Nýjar þarfir hefðu orðið til, einkum á höfuðborgarsvæðinu.  Samdráttur vegaframkvæmda á móti skattalækkunum mætti deila um.  Hann sagði að á þessu ári og því næsta yrði um 6 milljarða kr. skattalækkun hvort ár og á árinu 2007, 16 milljarða lækkun.  Hann taldi umræddan niðurskurð í vegamálum segja lítið upp í það og velti upp því sjónarmiði hvort hægt hefði verið að hafa vegaféð óbreytt en skattalækkun hvers árs lægri sem því næmi.   Hann sagði Vestlendinga þó heppna varðandi tvær stórar framkvæmdir sem væri lokið við því almennt væri hægt á stórum framkvæmdum í dag eða þeim frestað sem ekki væri byrjað á.  Hann fagnaði lækkun gangnagjalds.  Um aðgerð væri að ræða sem væri sannkallað byggðamál.

 

Magnús Stefánsson þakkaði samgöngunefnd SSV samstarfið í gegnum tíðina og þakkaði fyrir að fá að hitta nefndina reglulega.  Hann sagði alltaf tekist á um forgangsröðun fjármagnsins.  Magnús sagði það litlu máli skipta í efnahagslegu tilliti hvort minnkuð væru framlög til vegaframkvæmda en þetta væri niðurstaða sem alþingismenn yrðu að vinna eftir og mikil átök væru um skipulagningu framkvæmda.

Ráðherra vék af fundi og Jóhann Ársælsson tók við fundarstjórn.

Davíð Pétursson áréttaði að bættar samgöngur væru besta byggðastefnan.  Hann sagði kílóagjald af bílum ósanngjarnt og ekki renna til Vegagerðarinnar.  Hann vildi sjá þetta gjald úti eða það yrði skilyrt beint til vegagerðar. 

 

Kristinn Jónasson fór yfir nokkrar framkvæmdir og vísaði til þess að þeir frekustu fengju mest.  Oft vantaði pólitíska sýn varðandi landsbyggðina.  Til að fá unga fólkið aftur heim þá þyrftu að vera til staðar góðar aðstæður og samgöngur væru mikilvægt atriði hvað það varðar.  Menn yrðu að fara að taka ákvörðun um það hvort og hvernig ætti að byggja upp samfélög á landsbyggðinni.  Sem dæmi mætti nefna að úttreikningar á samgöngumann- virki pr. mann færu aðeins fram á landsbyggðinni.  Hann sagðist þakklátur fyrir góðar framkvæmdir á svæðinu.

 

Kolfinna sagði fullan skilning á því í nefndinni að mikilvægt væri að halda efnahagslegum stöðugleika en sagði það hlutverk nefndarinnar að minna á sig og ástand vegamála á Vesturlandi.  Hún sagði það hafa komið sér á óvart að fjármagn til tengivega hefði lækkað á síðustu árum. Þrátt fyrir að hafa talið þörf á auknu fjármagni til tengivega þá hefði þessi þróun komið sér á óvart.

 

Jón Bjarnason ræddi um viðhald og uppbyggingu vega vegna þungaflutninga.

 

Anna Kristín tók undir orð Davíðs varðandi mikilvægi samgangna og byggðastefnu.   Forsenda búsetu í dreifbýli væru góðar samgöngur.  Vandamál á þjóðvegunum, þungaflutningarnir.

Sigurjón sagðist hafa beðið um umræðu um skýrslu Vífils Karlssonar, sem fjallar um landfræðilegt misræmi í öflun og ráðstöfun opinbers fjármagns á Íslandi,  en ekki hefði tekist að koma þeirri umræðu á dagskrá.  Hann sagði forsvarsaðila þjóðarinnar forðast að ræða þessi mál.

 

Magnús Valur svaraði fyrirspurnum varðandi vegakafla í landshlutanum.

 

Davíð Pétursson vitnaði til ferðalagsins sem aldrei varð.  Þingmenn tóku vel í að gera aðra tilraun.   

 

Jóhann þakkaði fundarmönnum gagnlegan fund.

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 13:30.

 

Hrefna B. Jónsdóttir.
fundarritari.