6 – Sorpurðun Vesturlands

admin

6 – Sorpurðun Vesturlands

  • F U N D A R G E R Ð

Stjórnarfundur í Sorpurðun Vesturlands hf. haldinn á Hótelinu í Borgarnesi, 12. febrúar 2001 kl. 10.

Mættir voru: Einar Mathiesen, Guðbrandur Brynjúlfsson, Guðni Hallgrímsson, Kristinn Jónasson, Pétur Ottesen, Ríkharð Brynjólfsson, Sigríður Gróa Kristjánsdóttir og Hrefna B. Jónsdóttir.
Dagskrá fundarins er eftirfarandi:

1. Reikningar árið 2000.
2. Erindi frá Sláturfélagi Vesturlands
3. Erindi frá Hrannari Haraldssyni, Hvammstanga.
4. Niðurstöður efnagreininga frá Orkustofnun.
5. Tölvumál – vigtun í Fíflholtum.
6. Önnur mál.

Reikningar árið 2000.
Lagðir voru fram ársreikningar vegna ársins 2000 og voru þeir samþykktir samhljóða.

Erindi frá Sláturfélagi Vesturlands.
Borist hefur beiðni frá Sláturfélagi Vesturlands þar sem óskað er eftir því að Sorpurðun Vesturlands veiti helmings afslátt af reikningum frá árinu 2000.  Það var sammála álit stjórnar að beiðni þessi væri seint á ferðinni og Sláturfélag Vesturlands væri búið að vera meðvitað um þessa gjaldskrá í hálft ár.  Samþykkt var að veita SV 20% afslátt af reikningum frá júní til desember vegna umfangs viðskipta og gegn því að reikningarnir verðir greiddir innan sex vikna.

Erindi frá Hrannari Haraldssyni, Hvammstanga.
Borist hefur erindi frá Hrannari Haraldssyni, Hvammstanga þar sem hann fer fram á að fá að urða, tímabundið, sorp úr Húnaþingi Vestra í Fíflholtum.
Framkvæmdastjóra var falið að athuga betur með stöðu þessa máls og bíða með ákvarðanatöku þar til frekari upplýsingar liggja fyrir.

Niðurstöður efnagreininga frá Orkustofnun.
Borist hafa frá Orkustofnun niðurstöður efnagreininga á sýni sem tekið var að Fíflholtum þann 2. desember 1999.  Lagt fram til kynningar en þær upplýsingar sem þarna koma fram eru nokkurskonar rannsókn vegna núllstillingar.  Niðurstöður þessar verða síðar settar fram til samanburðar við þær rannsóknir sem seinna verða gerðar og kveðið er á um í starfsleyfi.

Tölvumál – vigtun í Fíflholtum.
Formaður sagði lítillega frá forritunargerð sem er í vinnslu vegna vigtunarmála í Fíflholtum.  Málið er komið á lokastig.

Önnur mál.

Gjaldskrármál.
Miklar umræður urðu um gjaldskrá fyrir urðun sláturúrgangs, kostnað við hann, möguleika á flokkun hans og fleira.  Stjórnarmenn töldu rétt að skoða möguleika þess að flokka sláturúrgang og var framkvæmdastjóra og formanni falið að skoða möguleika á því.  Var þeim einnig falið að skoða kostnað Sorpurðunar vegna urðunar sláturúrgangs.

Lögð var fram tillaga um að skoða gjaldskrá seinni hluta árs og voru fundarmenn sammála því.

Aðalfundur
Stefnt er að því að halda aðalfund föstudaginn 9. mars n.k.

Fundi slitið

Fundarritari.
Hrefna B. Jónsdóttir.