17 – SSV stjórn

admin

17 – SSV stjórn

                      F U N D A R G E R Ð
              Stjórnarfundur SSV mánudaginn 18. mars 2002
.
 
Stjórnarfundur SSV haldinn í húsnæði Norðuráls á  Grundartanga mánudaginn 18. mars 2002.  Mætt voru:  Dagný Þórisdóttir, Gísli Gíslason, Guðrún Jónsdóttir, Gunnar Sigurðsson, Kristinn Jónasson, Sigurður Valgeirsson og Hrefna B. Jónsdóttir.  Jónas Guðmundsson boðaði forföll og var varamaður hans boðaður en mætti ekki.
 
Dagskrá fundarins er eftirfarandi:
1. Nýútkomin byggðaáætlun.
2. Starf SSV og fundahöld fram yfir sveitarstjórnarkosningar.
3. Rarik – málið
4. Málefni atvinnuráðgjafar.
5. Fundur formanna og framkvæmdastjóra landshlutasamtakanna á Vesturlandi á komandi sumri.
6. Umsagnir þingmála:
7. Framlögð bréf og bókanir.
8. Framlagðar fundargerðir.
9.  Önnur mál.
 
Fundurinn hófst með því að Járnblendifélagið var sótt heim og fluttur var fyrirlestur um starfsemi félagsins en einnig var farið í skoðunarferð um svæðið.  Móttöku annaðist Helgi Þórhallsson.
Síðan var farið til Norðuráls þar sem einnig var farið í skoðunarferð um svæðið og starfsemin kynnt.  Móttöku annaðist Kristján Sturluson og Ragnar Guðmundsson. 
Að þessu loknu hófst stjórnarfundur í húsakynnum Norðuráls.
Var Hrefnu falið að senda þakkarbréf til forsvarsaðila fyrirtækjanna fyrir hlýlegar móttökur.
 
Nýútkomin byggðaáætlun.
Nýútkomin byggðaáætlun var lögð fram til kynningar.
 
Starf SSV og fundahöld fram yfir sveitarstjórnarkosningar.
Rætt um námskeiðahald fyrir nýja sveitarstjórnarmenn eftir næstu kosningar.  Fyrirséð er að mikil endurnýjun verður í sveitarstjórnum á Vesturlandi nú í vor og sveitarstjórnarmál verða sífellt flóknari viðureignar t.d. vegna lagaumhverfis.  Var vilji stjórnar að skoða það að setja saman námskeiðspakka.  Var Hrefnu falið að gera tillögu að því hvernig hægt væri að koma fyrir námskeiðshaldi n.k. vor.
 
Rarik – málið
Hrefna sagði frá stöðu Rarik málsins.
 
Málefni atvinnuráðgjafar.
Hrefna sagði fá því að 500.000 kr. Styrkur hefði fengist frá Menningarborgarsjóði til að halda sagnahátíð í Reykholti um mánaðamótin maí – júní.
 
Hrefna sagði frá samstarfi Viðskiptaháskólans við Nýsköpunarsjóð námsmanna, Atvinnuráðgjöf Vesturlands og sveitarfélög á Vesturlandi.
 
Fundur formanna og framkvæmdastjóra landshlutasamtakanna á Vesturlandi á komandi sumri.
Gunnar sagði frá því að nú væri komið að Vestlendingum að halda sumarfund með formönnum og framkvæmdastjórum á komandi sumri.  Hrefnu og Gunnari falið að skipuleggja dagskrá.
 
Umsagnir þingmála:
a. Frumvarp til laga um samgönguáætlun, 384. mál, og lagaákvæði er varða samgönguáætlun, 385. mál.
b. Frumvarp til laga um vatnsveitur sveitarfélaga, 378 mál.
c. Frumvarp til laga um geislavarnir, 344 mál, heildarlög.
d. Tillaga til þingsályktunar um rannsóknir á þorskeldi, 56. mál.
e. Tillaga til þingsályktunar um samkeppnisstöðu atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni, 266 mál.
f. Tillaga til þingsályktunar um flutning verkefna til sýslumannsembætta á landsbyggðinni, 488. mál.
g. Frumvarp til hafnarlaga, 386. mál, heildarlög.
h. Frumvarp til laga um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur, 520. mál, gjaldtökuheimildir og náttúrustofur.
i. Frumvörp til laga um fjárreiður ríkisins, 26. mál, fjáraukalög, og 28. mál, fjáraukalög 2001.
j. Tillaga til þingsályktunar um stefnu í byggðamálum 2002-2005, 538 mál.
k. Frumvarp til laga um stjórn fiskveiða, 562. mál.
 
Frumvarp til laga um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur.
Eftirfarandi ályktun var samþykkt af stjórn.
Stjórn SSV skorar á stjórnvöld að taka til endurskoðunar hlutfall sveitarfélaga í rekstrarkostnaði náttúrustofa.  Samkomulag var orðið á sl. ári um að sveitarfélögin greiddu 20% vegna rekstrarkostnaðar náttúrustofa en samkvæmt nýju frumvarpi eru þetta hlutfall aftur komið í 30%.  Skorað er á stjórnvöld að draga þessa hækkun til baka.
 
Framlögð bréf og bókanir.
Ársskýrsla minjavarðar Vesturlands og Vestfjarða.
Bókun frá Borgarbyggð
Bréf frá félagsmálaráðuneyti varðandi Jöfnunarsjóð sveitarfélaga.
Bréf frá Sambandinu varðandi ráðstefnur.
 
Guðrún Jónsdóttir sagði frá bókun frá Borgarbyggð sem hljóðar svo:
“Bæjarráð Borgarbyggðar bendir á nauðsyn þess að í boði séu víðtækir og góðir valkostir í framhaldsnámi á Vesturlandi.  Því er eindregið mótmælt hversu rekstur Fjölbrautaskólans á Akranesi er aðþrengdur. Sérstaklega er bent á að þessi þróun hefur orðið til þess að nemendur af Vesturlandi leita annað í verknám.  Skorað er á ráðuneyti menntamála að taka þessi mál til sérstakrar skoðunar og leita úrbóta í málefnum skólans með hagsmuni nemenda í huga.”
Guðrún fór yfir viðbrögð Fjölbrautaskólans við bókuninni þar sem forsvarsaðilar skólans þakka þann stuðning sem fram kemur í henni.  Nokkrar umræður urðu um framhaldsskólamál í landshlutanum. 
Samþykkt að að taka undir ályktun Borgarbyggðar og senda þá samþykkt til menntamálaráðherra og fjárlaganefndar Alþingis og ítreka einnig samþykkt aðalfundar SSV frá liðnu hausti.
 
Framlagðar fundargerðir.
UKV og Ferðamálasamtök Vesturlands.  Sorpurðun Vesturlands.  Eyþing.
 
Önnur mál.
Afmæli Ferðamálasamtaka Vesturlands.
Gunnar Sigurðsson vakti athygli á 20 ára afmæli Ferðamálasamtaka Vesturlands n.k. sumar. 
Bréf frá Dalabyggð.
Farið yfir beiðni Dalabyggðar um að ATSSV greiði mótframlag við starf atvinnu- og ferðamálafulltrúa í Dalabyggð.  Stefna stjórnarinnar hefur verið sú að veita mótframlag til einstakra tímabundinna verkefna og taldi stjórn að ráðning Dalabyggðar á atvinnu – og ferðamálafulltrúa Dalabyggðar falli utan þeirra viðmiðana.
Ákveðið var að Gunnar, Hrefna og Ólafur færu til Dalabyggðar til viðræðna við stjórnendur.

Fundarritari.
Hrefna B Jónsdóttir.