114 – SSV stjórn

admin

114 – SSV stjórn

                           114 fundur stjórnar SSV

Fundur haldinn í stjórn SSV, miðvikudaginn 28 janúar 2015 kl.09.30 í bæjarþingsalnum á bæjarskrifstofunni á  Akranesi. 

 

Mætt voru:

Ingveldur Guðmundsdóttir, Björn Bjarki Þorsteinsson, Hafdís Bjarnadóttir,  Eyþór Garðarsson, Eggert Kjartansson, Sif Matthíasdóttir, Guðveig Eyglóardóttir, Rakel Óskarsdóttir, Valgarður Jónsson,  Kristín Björg Árnadóttir og Björgvin Helgason sem sat fundinn sem varamaður Hjördísar Stefánsdóttur. 

Auk þess sátu fundinn Sigrún Þormar sem sem áheyrnarfulltrúi Skorradalshrepps í fjarveru aðal- og varamanns,  Páll S Brynjarsson, framkvæmdastjóri og Hrefna B. Jónsdóttir sem ritaði fundargerð.

 

Gestir fundarins undir lið 4 um almenningssamgöngur voru Einar Kristjánsson og Ragnheiður Einarsdóttir frá Strætó bs.  og undir lið 6 um samgöngumál, Magnús Valur Jóhannsson, forstöðumaður Vegagerðarinnar á Vesturlandi og Vestfjörðum.

Formaður setti fund og gekk til dagskrár.

 

1.      Framlögð fundargerð frá 113 fundi stjórnar SSV.

Formaður lagði fram fundargerð frá 113 fundi stjórnar SSV til staðfestingar.

 

2.      Menningarmál

 

a.      Minnisblað um rekstur menningarmála árið2014

Framlagt minnisblað um rekstur menningarmál á árinu 2014.  Þar kemur fram að á árinu 2014 varð rekstarafgangur að upphæð 5,1 mkr sem var hærra en áætlun gerði ráð fyrir. 

 

b.      Menningarstefna Vesturlands

Lagt fram minnisblað um gerð menningarstefnu fyrir Vesturland.

 

3.      Vesturlandsstofa

 

a.      Aðalfundur Vesturlandsstofu ehf.

Lögð fram tillaga um að aðalfundur Vesturlandsstofu fari fram 25 mars n.k.  Samþykkt.

 

b.      Auglýsing eftir starfsmanni á Vesturlandsstofu

Lögð fram tillaga um að forstöðumanni Vesturlandsstofu verði heimilt að auglýsa eftir starfsmanni í allt að 60% stöðugildi að jafnaði frá vordögum 2015, sbr. meðfylgjandi minnisblað. Samþykkt.

 

c.       Nýr samningur við Ferðamálastofu

Drög að nýjum samningi við Ferðamálastofu lagður fram til kynningar

 

 

4.      Almenningssamgöngur

 

a.      Yfirlit yfir rekstur almenningssamgangna á árinu 2014

Lagt fram yfirlit yfir rekstur almenningssamgangna á svæðinu sem eru í umsjá SSV á árinu 2014

 

b.      Sumaráætlun Strætó 2015

Á fundinn mætti Einar Kristjánsson rekstrarstjóri Strætó bs. og Ragnheiður Einarsdóttir ráðgjafi  til viðræðna um sumaráætlun 2015 og þjónustu Strætó b.s. við Vesturland almennt.

Í upphafi kom fram að framkvæmdastjóri og Ólafur Sveinsson atvinnuráðgjafi hafa átt fund með Strætó bs. um sumaráætlun og mögulegar breytingar á leiðarkerfinu.  

Fram hafði komið tillaga um  að skipta frá vetraráætlun yfir í sumaráætlun frá og með 7. júní.  Sú dagsetning er samhliða breytingum á höfuðborgarsvæðinu.  Stjórn mælir með þessari dagsetningu.

Á síðasta fundi stjórnar var rætt um möguleika á því að taka upp ferðir yfir sumartímann á sunnanverðu Snæfellsnesi, auk þess hafa Rútuferðir efh. kynnt hugmyndir sínar fyrir sveitarstjónarfólki um mögulegt skipulag á akstrinum.  Ráðgjafar Strætó b.s. hafa skoðað þá möguleika sem til staðar eru og ljóst að það þarf töluverðan fjölda farþega til þess að leiðin á milli Vegamóta og Arnarstapa standi undir sér.  Strætó b.s. falið að skoða frekari útfærslur á akstri á milli Vegamóta og Arnarstapa í samræmi við umræður á fundinum.

Einnig var rætt um leið 81, hringferð um Borgarfjörð, en nýting á þeirri leið hefur verið mjög dræm og hafa verið til skoðunar breytingar á henni.  Framkvæmdastjóra var falið að ræða við sveitarstjóra Borgarbyggðar um breytingar á þessari leið. 

Þá urðu talsverðar umræður um þjónustuna almennt og kom m.a. fram að Strætó-Appið er að ná meiri útbreiðslu.  Það mun ekki verða virkt fyrir landsbyggðina fyrr en árið 2016.  Appið opnar á hringmiðakaup en notendur geta einnig keypt fargjaldamiða sem gilda ótímabundið en þeir eru mikið notaðir af erlendum ferðamönnum.  Rætt var um aðbúnað farþega, hvort hægt verði að fá betri sæti í vagana sem keyra lengstu leggina þegar verður endurnýjað í vagnaflotanum.  Einar sagði ekkert því til fyrirstöðu.

 

Gestir viku af fundi.

 

c.       Samningur um leið 58

Framlagður samningur við Hjalta Allan Sveinsson um leið 58, en Hjalti tekur yfir akstur á leiðinni af Hópbílum.  Samningurinn var samþykktur.

 

5.      Málefni fatlaðra

Framlögð drög að samkomulagi við Akraneskaupstað um vinnu Helgu Gunnarsdóttur forstöðumanns fjölskylduskrifstofu Akraneskaupstaðar fyrir Þjónusturáð um málefni fatlaðra á Vesturlandi.   Samþykkt.

 

6.      Samgöngumál

Magnús Valur Jóhannsson forstöðumaður Vegagerðarinnar á Vesturlandi og Vestfjörðum mætti á fundinn til viðræðna um helstu framkvæmdir sem fyrirhugaðar eru á Vesturlandi á næstunni og áherslur Vestlendinga í vegamálum.

Magnús fór yfir framlög til vegaframkvæmda á árinu 2015.  Í upphafi gat hann þess að árið 2014 var flutt fjármagn úr nýframkvæmdum yfir í þjónustu og var þar einkum um  vetrarþjónustu að ræða.  Ef horft er til ársins 2015 þá sagði Magnús ekki margt á dagskrá.  Hann fór yfir framkvæmdaáætlun 2015 og yfir til 2016.  Þær framkvæmdir tengjast nokkuð ferðaþjónustusvæðum.  Stuttir kaflar og hefðbundin viðhaldsverkefni.  Brýnt væri að fara í yfirlagnir og uppbyggingar vega.  Rætt var um slitlagsvæðingu tengivega, þungaflutninga á vegum og viðamikil áform um uppbyggingu vega og fræsingu.  Vonir standa til að hægt verði að fræsa meira í ár en á síðasta ári.

 

Núverandi samgönguáætlun er fyrir árin 2011 – 2022.  Hann fór yfir helstu framkvæmdir innan hennar á næstu árum, en þær eru;  Biskupsbeygja á Holtavörðuheiði, Uxahryggjavegur og Kaldadalsvegur, Fróðárheiði og færsla þjóðvegar 1 við Borgarnes en um þá framkvæmd eru mjög skiptar skoðanir.  Í dag er unnið að endurskoðun samgönguáætlunar og mikilvægt að móta áherslur til lengri tíma.  Í umræðu um mótun langtímaáætlunar var rætt um breytingar á þjóðvegi 1 á sunnanverðu Vesturlandi og komið inn á breikkun vegar í 2+1, veg um Grunnarfjörð, umferðaröryggi við Grundartanga og síðan var rætt um framkvæmdir utan Vesturlands eins og þjóðveg 1 á Kjalarnesi og Sundabraut.

 

Magnús vék af fundi.

 

Stjórn samþykkit að fela framkvæmdastjóra að taka saman minnisblað, lista upp umræðuna og þær framkvæmdir sem stjórn telur æskilegt að vilja sjá í framtíðinni.  Ábending kom fram um mikilvægi þess að fá fund með samgönguráði sem stýrir endurskoðun samgönguáætlunar.

 

7.      Sóknaráætlun 2015-2019

Lögð fram drög að samningi um sóknaráætlun fyrir árin 2015-2019.  Einnig er lagt fram minnisblað um helstu breytingar sem verða á samning um sóknaráætlun, helstu áherslu atriði og fjárveitingar og skiptingu fjármagns á milli landshluta.

Framkvæmdastjóri fór yfir helstu atriði.  Vinna þarf stöðugreiningu og framtíðarsýn fyrir Vesturland.  Móta reglur fyrir Uppbyggingarsjóð og skilgreina átaksverkefni sem Vestlendingar vilja fara út í á næstu þremur til fjórum árum, út frá framtíðarsýninni.  Ríkisstjórn Íslands hefur samningsdrögin til uppfjöllunar og stefnt er að undirritun í febrúarmánuði.  Framkvæmdastjóri skýrði frá því að verið væri að vinna að því að ná meira fjármagni inn í sóknaráætlun.

 

 

8.      Starfsendurhæfing Vesturlands

Lögð fram til staðfestingar tillaga að skipan fulltrúa SSV í stjórn Starfsendurhæfingar Vesturlands, tillagan hefur áður verið samþykkt af stjórnarmönnum í tölvupósti. Stjórn staðfesti tillögu um að fulltrúar SSV verði;

 

Aðalmenn                                                                            Varamenn

Hafdís Bjarnadóttir                                                               Eggert Kjartansson

Þorkell Cýrusson                                                                  Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Helga Gunnarsdóttir                                                             Arndís Halla Jóhannesdóttir

Jafnframt var fundargerð stofnfundar lögð fram til kynningar og Hafdís Bjarnadóttir stjórnarmaður greindi frá umræðum á fyrsta fundir stjórnar.  

 

9.   Vaxtarsamningur Vesturlands

Lagt fram til kynningar yfirlit yfir úthlutanir úr Vaxtarsamningi Vesturlands á árinu 2014, en á fundi stjórnar Vaxtarsamnings Vesturlands í desember s.l. var úthlutað 8,2 mkr til níu verkefna.   

 

10.  Skrifstofa SSV

Lagt fram minnisblað yfir fyrirhugaðar breytingar á starfsemi skrifstofu SSV, en starfsmenn hafa undanfarið verið í stefnumótunarvinnu.  Fyrirhugaðar breytingar ná m.a. yfir verkferla, upplýsingamál og mannauðsmál.

Framkvæmdastjóri kynnti minnisblað og hver yrðu næstu skref varðandi frekari vinnu. 

 

11.  Ályktun frá Grundarfjarðarbæ um atvinnumál

Lögð fram ályktun frá fundi bæjarstjórnar Grundarfjarðar frá 15.01 s.l. þar sem skorað er á SSV að hafa forgöngu um að sett verði af stað vinna á Vesturlandi, í samvinnu við forsætisráðuneytið, sem hefur það að markmiði að efla atvinnulíf.

Eyþór Garðarson fylgdi erindi Grundarfjarðarbæjar eftir.  Framkvæmdastjóra falið að óska eftir fundi með forsvarsmönnum forsætisráðuneytisins til að ræða þessa tillögu.

 

12.  Ljósaleiðaratengingar á Vesturlandi

Rætt um verkefnið ,,Efling fjarskipta á Vesturlandi“ og hvernig unnið verði áfram að þeim hluta verkefnisins sem hefur snúist um ljósleiðaravæðingu á sunnanverðu Snæfellsnesi.  Einnig  rætt um hringtengingu ljósleiðara á Snæfellsnesi og í Dalabyggð.

Framkvæmdastjóri reifaði forsögu verkefnisins og stöðu þess.  Þingmennirnir Haraldur Benediktsson og Ásmundur Einar Daðason hafa komið á fund SSV og rætt þessi mál.  Mikil gerjun er í gangi varðandi ljósleiðaravæðingu dreifbýlis og eldmóður í íbúum sem vilja tengjast ljósleiðara.  Loks kom fram að SSV hefur óskað eftir fundi með innanríkisráðherra vegna hringtengingar ljósleiðara á Snæfellsnesi og í Dölum

Starfsmönnum SSV falið að vinna áfram að þessum málum.

 

Hádegisverðarhlé

 

13.  Framlögð mál

  • Yfirlit frá framkvæmdastjóra um helstu fundi og ráðstefnur sem hann hefur sótt fyrir hönd SSV.  Lagt fram.
  • Námskeið fyrir fulltrúa í sveitarstjórnum.
  • Framkvæmdastjóri skýrði frá námskeiðum sem haldin hafa verið  í upphafi kjörtímabils sveitarstjórna.  Hann hvatti nýtt sveitarstjórnarfólk til þátttöku þar sem reynsla námskeiðanna væri mjög góð.
  • Fræðsluferð– örstutt kynning á skoðun á kynnis- og námsferð fyrir sveitarstjórnarmenn haustið 2015.  Stjórn tók vel í hugmyndir að fræðsluferð og fól framkvæmdastjóra að útfæra þær nánar.

 

Fundi slitið kl. 13:35

 

Að loknum fundi kynntu þau Ólafur Adolfsson formaður bæjarráðs Akraneskaupstaðar og Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri þau mál sem efst eru á baugi á Akranesi.  Þau gerðu sérstaklega að umtalsefni stofun þróunarfélags á Grundartanga, skipulag á sementsreitnum á Akranesi, uppfyllingu við hafnarsvæðið og mögulega uppbyggingu á starfsemi HB-Granda í tengslum við aukið landrými og loks gerðu þau grein fyrir starfsáætlun Akraneskaupstaðar sem nýleg kom út.