27 – SSV samgöngunefnd

admin

27 – SSV samgöngunefnd

Fundur haldinn í samgöngu- nefnd SSV föstudaginn 12. mars 2010 kl. 15:00 á Hótel Hamri

 

Mætt voru: Davíð Pétursson, Sæmundur Víglundsson, Sigríður Finsen, Hallfreður Vilhjálmsson, Kristinn Jónasson og Finnbogi Leifsson.  Einnig sátu fundinn Hrefna B. Jónsdóttir, SSV,  og Magnús Valur Jóhannsson frá Vegagerðinni.

 

Davíð Pétursson, aldursforseti, setti fund og gekk til fyrsta dagskrárliðs.
  
Kosning formanns.
Davíð Pétursson kosinn formaður samgöngunefndar.

Magnús Valur segir frá stöðu framkvæmda á Vesturlandi.
Magnús Valur sagði ekkert boðið út á norðvestursvæðinu á yfirstandandi ári.  Hann fór yfir verkefni ársins, en mörg verkefni hafa fallið niður, og áhersluatriði inn í samgönguáætlun til ársins 2012.  Hann saðist hafa áhyggjur af viðhaldsverkefnum.  Betra væri að skera niður nýframkvæmdir en að láta viðhald vega eiga sig því mjög erfitt er að missa vegina niður.  Átti hann einkum þar við vegi sem bundnir eru slitlagi.
Hann nefndi sérstaklega framkvæmdir á Vesturlandi sem eru til skoðunar við endurskoðun nýrrar vegáætlunar 2009-2012 og eru m.a.:
Vegrið á Borgarfjarðarfyllinguna
Nýr vegur um Biskupsbeygju á Holtavörðuheiði
Ný brú á Reykjadalsá við Kleppjárnsreyki
Ný brú á Haffjarðará
Uxahryggjavegur, frá Borgarfjarðarbraut ca. 3 km

 

 Formaður velti því fyrir sér hvort nýir skattar, sem verið er að leggja á bíleigendur og þá sem reka bifreiðar, skiluðu sér ekki til framkvæmda í vegakerfið. 

Sigríður Finsen sagði þessi tíðindi sláandi fyrir Vesturland og hvort það  væri möguleiki á því að hafa áhrif á betri dreifingu framkvæmda innan svæðisins, þ.e. Vestfjarða og Vesturland. 

Kristinn Jónasson sagðist ekki ánægður.  Hann ræddi einstakar framkvæmdir og vetrarþjónustu.  Verulega hefði dregið úr þjónustu við að ryðja vegi frá því sem verið hefði en hann tók það fram að þessi staða hefði ekki komið oft upp. 
Hann varpaði því til MVJ hvort möguleiki væri að setja upp veðurstöð við Mávahlíð en oft hefðu fallið niður ferðir milli Grundarfjarðar og Ólafsvíkur í tengslum við skólaaksturinn.  Það kæmi sér betur ef hægt væri að styðjast við veðurmælingar.  Sigríður Finsen tók undir það og nefndi að aðalfundur Héraðsnefndar Snæfellinga hefði ályktað um málið nýlega.  Að lokum velti hann því upp hvort ekki væri hægt að setja upp vefmyndavél á Fróðárheiði.  Það myndi auðvelda ferðamönnum að sjá hvort vegurinn væri auður.

 

Sæmundur Víglundsson ræddi um gatnamót Akrafjallsvegar nr. 51 og Akranesvegar nr. 509.  Sagði aðstæður þar skelfilegar og þar yrði að koma til lýsing.  MVJ sagði að úrbætur á umræddum gatnamótum væru mjög framarlega á forgangslista Vegagerðarinnar.   Í framhaldinu urðu umræður um kostnað við úrbætur.

 

Hallfreður tók upp umræður um gatnamót í Hvalfjarðarsveit.  Hann sagði hættu myndast á morgnana við Grundartangavegamótin en þau hafa ekki verið á dagskrá hjá Vegagerðinni. Hann minntist einnig á skýrslu sem unnin var fyrir Hvalfjarðarsveit sem fjallar um hættuleg gatnamót í sveitarfélaginu en Vegagerðin hefur þá skýrslu undir höndum.

 

MVj sagði þjónustustig í vetrarþjónustu vera það sama, þ.e. samkvæmt óbreyttum reglum,  í þeim tilfellum sem Kristinn nefndi.  Hins vegar sagði hann að almennt hefði vetrarþjónustan minnkað og menn hefðu fengið stíf fyrirmæli um að fara ekki fram úr kostnaðaráætlunum.

 

Finnbogi Leifsson sagðist vilja leggja áherslu á vegi sem tengjast íbúum svæðisins.  Hann væri ekki með því að gera lítið úr öðrum vegum.

Nefndarmenn voru sammála um það að óska eftir fundi með þingmönnum kjördæmisins.  HBJ falið að óska eftir fundi.

 

MVJ  falið að lista upp framkvæmdir sem voru á vegaáætlunni til 2012 og eru eftir. Hvaða verk það eru og á hvaða ári þau hafa átt að fara af stað.

 

Önnur mál.
Rætt um álag þjóðvegarins á milli Borgarness og Reykjavíkur m.t.t. þungaflutninga og vetrarþjónustu Vegagerðarinnar. 

 

Fundarritari: Hrefna B. Jónsdóttir