Nýverið samþykkti Uppbyggingarsjóður Vesturlands að veita Vínlandssetri í Búðardal og Kaju Organic á Akranesi öndvegisstyrki sjóðsins. Í haust auglýsti sjóðurinn eftir hugmyndum að verkefnum sem gætu hlotið öndvegisstyrk úr sjóðnum. Alls bárust tillögur að 10 verkefnum og var það niðurstaða stjórnar Uppbyggingarsjóðs Vesturlands að velja þrjú verkefni sem fengu stuðning til að vinna viðskiptaáætlanir um frekari útfærslu. Eitt verkefnanna dró síðan umsókn sína til baka og eftir stóðu því áðurnefnd tvö verkefni. Niðurstaða stjórnar Uppbyggingarsjóðs var að veita Vínlandssetri öndvegisstyrk að upphæð kr. 11.000.000 og Kaju organic styrk að upphæð kr. 4.000.000.-
Vínlandssetur í Búðardal er verkefni sem hefur verið í undirbúningi um nokkurt skeið. Setrið segir í einni sýningu frá landnámi íslenskra manna í Grænlandi og af fundi þeirra og ferðum til Ameríku. Sýningin verður sett upp á efri hæð Leifsbúðar, en á neðri hæð verður minjagripaverslun og veitingastaður. Vínlandssetur verður n.k. systursetur Landnámssetursins í Borgarnesi, en þau hjónin Kjartan Ragnarsson og Sigríður Margrét Guðmundsdóttir hafa í samstarfi við Dalabyggð unnið að undirbúning að stofnun setursins. Markmiðið með Vínlandssetri er að laða til sín innlenda sem erlenda ferðamenn og efla þannig Dalabyggð sem ferðaþjónustusvæði.
Kaja organic á Akranesi er orðið þekkt vörumerki og stendur fyrir lífrænt vottað, gæði og gott verð. Karen Jónsdóttir eigandi fyrirtækisins hefur rekið heildsölu, verslun og kaffihús með lífrænar vörur, auk þess að framleiða lífrænar kökur og pasta. Nú hyggst Karen hefja framleiðslu á jurtamjólk undir merkjum Kaju organic og fær fyrirtækið öndvegisstyrk til að hefja framleiðslu á lífrænni jurtamjólk.