Vel heppnuð málstofa á Akranesi

SSVFréttir

Áfangastaða- og Markaðsstofa Vesturlands stóð fyrir málstofu á Akranesi í gær, í samstarfi við Akraneskaupstað, AECO og Faxaflóahafnir þar sem rætt var um tækifæri og áskoranir í komu skemmtiferðaskipa í Akraneshöfn.
Frá málstofunni á Akranesi Frá málstofunni á Akranesi
Tækifæri í móttöku skemmtiferðaskipa og skipafarþega á Vesturlandi

Áfangastaða- og Markaðsstofa Vesturlands, ásamt Akraneskaupstað og Faxaflóahöfnum taka nú þátt í samstarfsverkefni um gæði í móttöku á skemmtiferðaskipum á Akranesi. Þetta er Nora verkefni sem kemur í gegn um Ferðamálastofu og er samstarfsverkefni við AECO þar sem unnið er með nokkrum höfnum á Íslandi, Noregi, Færeyjum og Grænlandi.

Tilgangur málstofunnar var að ræða áskoranir og tækifæri fyrir Akranes sem áfangastað gesta skemmtiferðaskipa og setja saman grunn að leiðarvísi fyrir farþega sem koma í land á Akranesi. Málstofan, sem var haldin í sal FEBAN í húsnæði Akraneskaupstaðar, var nokkuð vel sótt og kom þar saman fólk úr ólíkum greinum. Unnið var útfrá leiðarvísum sem AECO hefur nú þegar látið útbúa fyrir nokkra áfangastaði skemmtiferðaskipa. Afraksturinn verður kynntur síðar.

Ætla má að þessi vinna verði til þess að fjölga komu skemmtiferðaskipa í höfn á Akranesi sem og undirbúa svæðið fyrir komu gesta þannig að allir aðilar, gestir, íbúar og þjónustuaðilar hafi hag af.

Í kjölfar þessa verkefnis stefnir Áfangastaða- og Markaðsstofa Vesturlands á að fara í vöruþróun með samstarfsaðilum þar sem settir verða saman ferðapakkar sem henta fyrir skipafarþega sem koma í höfn á Akranesi sem verður svo lögð áhersla á í markaðssetningu. Áhugasamir þjónustuaðilar geta skráð sig til þátttöku hér. Miðað er við þjónustuaðila á Akranesi og svæðinu þar um kring, í Hvalfirði og Borgarfirði.

Til að fylgjast betur með verkefnum Á&M, smellið hér.