Þann 8. október síðastliðinn var blásið til íbúafundar á vegum Dalaauðs. Fundurinn var vel heppnaður og verkefnastjórn skilar þakklæti til þeirra sem tóku virkan þátt á fundinum. Síðustu vikur hafa bæði verið annasamar og erfiðar, og þótti verkefnastjórn sérstaklega vænt um að sjá Dalamenn koma saman og ræða verkefnið DalaAuð og hugsa samfélagið sitt til framtíðar á jákvæðan og uppbyggilegan hátt.
Þetta var fjórði íbúafundurinn sem haldinn er vegna DalaAuðs en ákveðið hefur verið að framlengja verkefnið um eitt ár og verður það því að óbreyttu til loka árs 2026.
Fundurinn var vel heppnaður í alla staði en fyrir lá að íbúar fengju að rýna og koma með athugasemdir við verkefnisáætlun DalaAuðs. Voru umræður bæði gagnlegar og uppbyggilegar. Nú mun verkefnisstjórn taka athugasemdirnar til skoðunar og verður uppfærð áætlun birt hér á vef Dalabyggðar og á vef Byggðastofnunar.